Eins óheppilegt og nokkuð getur verið

Guðjón Þórðarson var ráðinn þjálfari Ólafsvíkinga.
Guðjón Þórðarson var ráðinn þjálfari Ólafsvíkinga. Ljósmynd/Víkingur

„Þetta er ekki alveg undirbúningurinn sem maður hefði kosið þegar ég tók við liði á miðju tímabili. Þjálfararnir sem við erum að keppa við hafa verið með liðin sín í marga mánuði, ég er búinn að fá tvær æfingar hér og tvær þar,“ sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari knattspyrnuliðs Víkings úr Ólafsvík er hann ræddi við Valtý Björn Val­týs­son í Mín skoðun á Sport FM í gær.

„Þetta er eins óheppilegt og nokkuð getur verið,“ bætti hann við en Guðjón og í raun allt lið Ólafsvíkinga er nýkomið úr sóttkví eftir að upp komst um kórónuveirusmit hjá félaginu fyrir nokkrum vikum. Guðjón er nýtekinn við liðinu og aðeins tekist að stýra því í tveimur leikjum til þessa.

Víkingar fá Þróttara í heimsókn til Ólafsvíkur klukkan 18 í kvöld. „Það eru allir leikir mikilvægir en þessi sérstaklega. Við megum ekki renna til, taflan er fljót að breytast í þriggja stiga reglunni.“ Ólafsvíkingar eru með níu stig í níunda sæti en Þróttarar eru á botninum með eitt stig.

mbl.is