Valsmenn styrktu stöðu sína á toppnum

Úr leik liðanna í fyrra.
Úr leik liðanna í fyrra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Valsmenn styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar með 1:0 sigri á KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag. Sigurmarkið skoraði Kristinn Freyr Sigurðsson snemma leiks eftir varnarmistök Rodrigo Gómez í liði KA í annars afar lokuðum leik.

Með sigrinum í dag komust Valsmenn í 22 stig og hafa því fimm stiga forskot á næstu lið, KR og FH, sem hafa 17 stig en hafa leikið leik minna.

Norðanmenn hafa 8 stig í 9. sæti en um fyrsta deildartap Arnar Grétarssonar er að ræða í sínum fjórða deildarleik með KA. Undir hans stjórn hefur liðið skorað eitt mark í fjórum deildarleikjum en hlotið fimm stig.

Kringumstæðurnar voru nokkuð sérstakar fyrir leik vegna áhorfendaleysisins og dauft yfir og segja má að hreinsun KA-mannsins Rodrigo Gomes á 7. mínútu hafi verið í takt við það. Skalli hans innan teigs endaði á Kristni Frey Sigurðssyni einum á auðum sjó sem afgreiddi boltann í netið af stuttu færi og kom Valsmönnum yfir, 1:0.

Valsmenn komust nokkrum sinnum í ágætissóknarstöður í fyrri hálfleik en Sigurður Egill Lárusson komst næst því að tvöfalda forystu heimamanna er skot hans fyrir utan teig fór í stöng á 14. mínútu. Annars hélt KA-liðið heimamönnum þokkalega í skefjum.

Uppspil KA-manna var máttlítið í fyrri hálfleik og ógnuðu norðanmenn því nánast eingöngu með föstum leikatriðum með litlum árangri og kannski ekki mikil furða að liðið hafi aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórum deildarleikjum.

Spilamennska KA-manna batnaði þó lítillega í síðari hálfleik og færði liðið sig framar á völlinn og hélt boltanum betur innan liðsins. Færin létu þó ekki mikið á sér bera. Liðin voru vel skipulögð og skorti raunar báðum gæði á síðasta þriðjungi vallarins og spilar þar vafalaust pásan vegna kórónuveirunnar inn í.

Þrátt fyrir nokkuð þunga pressu síðustu mínúturnar af hálfu norðanmanna má segja að Valsmenn hafi siglt þessum sigri þægilega í höfn.

Valur 1:0 KA opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert