Jafntefli í tíðindalitlum leik í Garðabæ

Stjarnan og Þór/KA eigast við í dag.
Stjarnan og Þór/KA eigast við í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggva

Stjarnan og Þór/KA gerðu 1:1 jafntefli í tíðindalitlum leik í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í Garðabæ í kvöld.

Leikur Stjörnunnar og Þórs/KA var rólegur framan af þó ekki hafi skort baráttuvilja í liðin sem bæði eru um eða fyrir neðan miðja deild. Hættulegar marktilraunir voru af skornum skammti allan fyrri hálfleik og náði hvort lið ekki nema einni eða tveimur almennilegum marktækifærum.

Tveir leikmenn Stjörnunnar fóru meiddir út af snemma leiks og var kláraði liðið allar fimm skiptingarnar á innan við 60 mínútum. Greinilega ágætisbreidd í Stjörnuliðinu.

Þrátt fyrir nokkuð jafnan leik og tiltölulega fá marktækifæri voru Akureyringarnir talsvert líklegri framan af og pressuðu hátt á Garðbæingana. Það var svo um miðjan síðari hálfleik sem loks dró til tíðinda í markamálum, en það var Stjarnan sem hafði heppnina með sér í einni sókninni þegar tveir varnarmenn Þórs/KA skullu saman rétt fyrir utan teig og lágu þar eftir.

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir hirti boltann rétt fyrir utan teig og náði góðu skoti, enda fáir standandi varnarmenn til að bregðast við, og kom boltanum í netið, stöngin inn. Virkilega klaufalegt hjá Akureyringunum, sem voru eðlilega hungraðar í að jafna og áttu hverja sóknina á fætur annarri síðustu 10 mínútur leiksins og var það svo María Catharina Ólafsdóttir Gros sem jafnaði metin á lokasekúndunum.

Nokkuð jafn leikur og úrslit í tíðindalitlum leik Stjörnunnar og Þór/KA tiltölulega sanngjörn.

Þór/KA er í 5. sæti deildarinnar með ellefu stig eftir leikinn, en Stjarnan í því 7. með átta stig. Stjarnan hefur þó leikið 9 leiki en Þór/KA aðeins 8.

Stjarnan 1:1 Þór/KA opna loka
90. mín. María C. Ólafsdóttir Gros (Þór/KA) skorar
mbl.is