„Það er eitthvað að hjá þessu félagi“

Haukur Magnússon hefur verið í Þrótti frá unga aldri.
Haukur Magnússon hefur verið í Þrótti frá unga aldri. mbl.is/Rax

Haukur Magnússon fyrrverandi formaður Þróttar úr Reykjavík er ekki sáttur með hvernig honum hafi verið bolað út úr félaginu af stjórn þess. Ræddi hann málið við Valtý Björn Valtýsson í Mín skoðun á Sport FM

Hann segir núverandi stjórn ekki fara eftir lögum félagsins, en ósætti var innan þess vegna skerðingu vegna kórónuveirufaraldursins. 

„Í lögum félagsins er kveðið á um að aðalstjórnarmenn eigi ekki að sitja í stjórnum deilda. Þessi stjórn fer ágætlega af stað og höndlar veirufaraldurinn prýðilega. Þau töluðu við leikmenn og fengu þá til að lækka sín kjör ásamt þjálfurum. Síðan fer veiran að hafa meiri áhrif og það var mat stjórnar að það þurfi að skera niður meira varðandi leikmannakaup. Ég sagði að það væri óvarlegt að ætla sér í það.“

Haukur var enn þá að fagna fyrsta sigri karlaliðs Þróttar í sumar, þegar segir að sér hafi verið bolað út. „Ég var nýkominn frá Ólafsvík og himinlifandi með fyrsta sigurinn, en þá kemur þetta í höfuðið á mér,“ sagði Haukur.

Hann segir það dapurt að búið sé að leggja niður meistaraflokk Þróttar í handbolta og er lítið sem ekkert blak spilað hjá félaginu. „Þetta er Þróttur í dag. Félagið er illa skipulagt og knattspyrnan er 95 prósent af þessu félagi og að hún sé ekki með einn einasta starfsmann sem vinnur í þeirra þágu er með ólíkindum. Það er eitthvað hjá þessu félagi,“ sagði Haukur sem hefur verið afar áberandi sem stuðningsmaður Þróttar, Köttari, um langt árabil og lék á sínum tíma með knattspyrnuliði félagsins.

mbl.is