Gamla ljósmyndin: Glókollarnir

Morgunblaðið/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Þeir voru yfirleitt auðþekkjanlegir á velli um miðjan níunda áratuginn knattspyrnumennirnir Pétur Pétursson og Arnór Guðjohnsen. Glókollar sem voru yfirleitt vel hærðir og stundum með hár niður á bak. 

Þeir vöktu þó ekki síður athygli fyrir hversu skeinuhættir þeir voru fyrir framan mark andstæðinganna. Báðir héldu þeir í atvinnumennsku árið 1978 eftir að hafa ungir sett svip sinn á Íslandsmótið með ÍA og Víkingi.

Þeim tókst einnig að skapa sér nafn utan landsteinanna. Pétur var í hópi markahæstu leikmanna Evrópu þegar hann lék með Feyenoord og lék með kempum eins og Ruud Gullit og Mario Kempes á ferlinum. Markamet hans í efstu deild Íslandsmótsins frá 1978 hefur ekki enn verið slegið. Arnór var kjörinn leikmaður ársins bæði í Belgíu og Svíþjóð á sínum atvinnumannsferli. Lék þá með Anderlecht og Örebro. Hann lék tvisvar til úrslita í Evrópukeppnum. 

Á myndinni má sjá þá félaga kampakáta innan um unga stuðningsmenn eftir landsleik gegn Sovétríkjunum á Laugardalsvellinum haustið 1986. Leikurinn var í undankeppni EM 1988 og lauk með jafntefli 1:1 en Arnór skoraði mark Íslands. Sovétmenn fóru alla leið í úrslitaleik keppninnar en töpuðu þar fyrir Hollendingum. 

Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem starfað hefur fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. 

Arnór lék 73 A-landsleiki og skoraði 14 mörk á árunum 1979-1997 en Pétur lék 41 A-landsleik á árunum 1978-1990 og skoraði 11 mörk.

Arnór hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1987. 

mbl.is