Blikar of sterkir með Sveindísi í fararbroddi

Agla María Albertsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir fagna í kvöld.
Agla María Albertsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir fagna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik vann 3:1-sigur á Stjörnunni á Kópavogsvelli í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og halda þar með í við Valsara í toppbaráttunni. Breiðablik er í öðru sæti með 33 stig, stigi á eftir Val og á þar að auki leik til góða.

Valsarar juku forskot sitt á toppnum aftur í fjögur stig eftir dramatískan sigur á Selfossi fyrr í dag, 2:1, og var því pressa á leikmönnum Breiðabliks að dragast ekki aftur úr í titilbaráttunni. Blikakonur virtust una því vel í upphafi leiks og tóku forystuna á 16. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir skallaði í markið eftir góða fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur. Oft er það þannig að takist ógnarsterku liði Blika að skora snemma, þá gengur það á lagið og bætir við. Sú var ekki raunin þetta kvöldið á Kópavogsvelli.

Heimakonur virtust slaka á klónni og buðu hættunni heim. Fyrstu teikn þess voru á lofti þegar Hildur Þóra Hákonardóttir missti boltann af kæruleysi til Anítu Ýrar Þorvaldsdóttur rétt utan eigin vítateigs. Stjörnukonan gerði sér ekki mat úr því og Hildur bjargaði sér fyrir horn en Aníta, besti leikmaður Garðbæinga í kvöld, átti þó eftir að leika heimakonur grátt áður en hálfleiksflautið gall.

Hún átti frábæran sprett upp vinstri kantinn á 33. mínútu, lék á varnarmann og þrumaði svo að marki en Sonný Lára Þráinsdóttir varði boltann í stöngina og út. Sjö mínútum síðar skoraði hún svo eftir önnur mistök heimakvenna. Rakel Hönnudóttir, sem yfirleitt er öryggið uppmálað, misreiknaði sig utan teigs og missti boltann til Anítu sem, ein í gegn, skoraði fram hjá Sonný. Staðan 1:1 í hálfleik.

Blikar mættu afar grimmir til síðari hálfleiks og pressuðu látlaust að marki Stjörnunnar fyrstu tuttugu mínúturnar eða svo. Sú pressa átti eftir að skila sér þegar Sveindís endurheimti forystu heimakvenna með öðru marki sínu, aftur eftir hornspyrnu sem Agla María tók. Sveindís skoraði af stuttu færi eftir að Shameeka Fishley mistókst að skalla frá marki. Erfitt er að ráða við framherjann inni í vítateig.

Blikar réðu svo áfram lögum og lofum út síðari hálfleikinn og Rakel rak svo smiðshöggið á sigurinn á 83. mínútu og bætti upp fyrir mistökin fyrr í leiknum með marki af stuttu færi eftir verulega góðan undirbúning frá Sveindísi. Lokatölur 3:1. Stjarnan er áfram í 6. sæti með 14 stig, nú eftir þrettán leiki.

Ekki slæmt að hafa Sveindísi

Markahæsti leikmaður deildarinnar, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, fór til Frakklands um síðustu mánaðamót en hún skoraði 12 mörk í níu leikjum fyrir Blika og munar auðvitað um það. En Kópavogsliðið er með nóg af markaskorurum innan sinna raða og hefur það fallið í hlut Sveindísar að spila sem fremsti maður en hún hefur áður verið frábær á kantinum á tímabilinu. Hún er ekki verri upp á topp, skoraði tvö mörk í kvöld og lagði upp það þriðja. Hún kom heimakonum á bragðið í upphafi leiks og kom þeim svo til bjargar með öðru marki sínu í síðari hálfleik þegar Blikar voru kannski ekki að spila sinn allra besta fótbolta.

Sveindís Jane í leiknum í kvöld.
Sveindís Jane í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sveindís er frábær fyrir okkur, getur spilað fremstu stöðu og út á kanti. Hún er stórkostlegt og það er ekki slæmt að hafa hana með sér í liði,“ sagði Rakel Hönnudóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is strax að leik loknum. Orð hennar eru tekin trúanleg.

Stjörnunnar bíður annað ærið verkefni í næsta leik. Garðbæingar fá Íslandsmeistara Vals í heimsókn á sunnudaginn kemur en Breiðablik fer norður á Akureyri og mætir Þór/KA á sama tíma.

Breiðablik 3:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert