Undarleg uppákoma í Kaplakrika

Leikmenn og starfsmenn Stjörnunnar bíða eftir því að komast inn …
Leikmenn og starfsmenn Stjörnunnar bíða eftir því að komast inn í búningsklefann í hálfleik í dag. Ólaf Jóhannesson má sjá fremstan á myndinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undarleg uppákoma varð í Kaplakrika í dag þegar FH og Stjarnan áttust þar við í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. 

Að loknum fyrri hálfleik gengu leikmenn liðanna til búningsherbergja eins og venja er. Garðbæingar komust þó ekki rakleitt í búningsklefann því þeir komu að læstri hurð. Þar var enginn sjáanlegur sem gat opnað búningsklefann fyrir gestina og samkvæmt tíðindamanni mbl.is biðu Garðbæingar í fimm mínútur eða svo eftir því að starfsmaður kæmi og hleypti þeim inn í klefann til að ráða ráðum sínum.

Óhætt er að segja að Ólafi Jóhannessyni, öðrum þjálfara Stjörnunnar og fyrrverandi leikmanni og þjálfara FH, hafi ekki verið skemmt. Þegar hurðin var loksins tekin úr lás má ímynda sér að hún hafi fallið ansi þétt að stöfum. 

Ljósmyndarar mbl.is eru sjaldnast langt undan þegar eitthvað fréttnæmt gerist og Eggerti Jóhannessyni tókst að fanga bið Stjörnumanna á mynd. 

mbl.is