Gátum beðið eftir að allt opnaðist

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum erfitt með að brjóta Stjörnuna niður í dag, þær voru frábærar, mjög þéttar í vörninni og við þurfum að vera þolinmóðar til að setja eitt marki en þegar það kemur snemma er allt þægilegra, við gátum slakað aðeins á og beðið eftir að allt myndi opnast.  Það gerðist í lokin en þær voru okkur erfiðar,“  sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir úr Val eftir 3:0 sigur á Stjörnunni í Garðabænum í dag þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta, Pepsi Max deildinni.

Gunnhildur Yrsa spilaði áður með Stjörnunni, fór svo til Bandaríkjanna og fór í Val þegar hún sneri til baka.  „Mér finnst auðvitað skrýtið að koma hérna fyrst en um leið og maður stígur inná völlinn gleymist það.  Auðvitað ber ég ennþá mikla tilfinningar til Stjörnunnar og það er ekkert að fara breytast en þetta er bara fótbolti og þegar maður stígur inná völlinn vill maður bara gera sitt besta og gleyma á móti hverjum það er.“

Valskonur eru á toppnum, einu stigi á undan Breiðabliki sem á einn leik til góða en sú spenna truflar Gunnhildi Yrsu ekki neitt, þvert á móti. „Ég sjálf spái ekkert í það, maður getur bara stjórnað sjálfum sér.   Það er samt skemmtilegra svona með mikilli fallbaráttu og líka baráttu á toppnum, svona vil ég hafa það og langskemmtilegast svona.   Ég held að bæði Breiðablik og Valur líki við pressuna en við getum bara einbeitt okkur að einum leik í einu.  Það eru bara fjórir leikir eftir sem er ekki mikið, nú kemur smá hlé og svo byrjar baráttan bara aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert