„Mér fannst þetta verðskuldað“

Frá leik FH og Breiðabliks í kvöld.
Frá leik FH og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Íris

Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði karlaliðs FH í knattspyrnu, var sáttur með frammistöðu sinna manna eftir 3:1 sigur á liði Breiðabliks í 16. umferð Pepsi Max deildarinnar í Kaplakrika í kvöld. 

„Þetta var geggjaður sigur. Mér fannst þetta verðskuldað, við fengum fullt af færum hérna í dag og nýttum þrjú sem var mjög gott og vinnan líka sem er mjög mikilvægt fyrir okkur,“ segir Björn Daníel. 

Leik­ur­inn var held­ur tíðinda­laus fram­an af og oft lang­ir kafl­ar þar sem lítið var um að vera. Liðin spiluðu bæði frek­ar framar­lega á vell­in­um en hvor­ugu þeirra tókst að skapa ein­hver efni­leg tæki­færi. Bæði lið áttu í mikl­um erfiðleik­um með föst leik­atriði. Steven Lennon kom FH yfir á 34 mínútu, en Viktor Karl Einarsson jafnaði metin fyrir Breiðablik skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Það var því jafnt í leikhléi. 

FH-ingar komu hins vegar af miklum krafti í síðari hálfleik og komst FH yfir að nýju á 77. mínútu, en þar var Lennon aftur á ferð. Atli Guðnason tryggði svo 3:1 sigur FH-inga á 90. mínútu. 

Björn segist sáttur með frammistöðu liðsins í kvöld. 

„Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik, fengum á okkur þetta mark seint í hálfleiknum en mér fannst við pressa á þá bara betur, unnum boltann og sköpuðum fullt af góðum stöðum. Við hefðum getað skorað fleiri mörk, en þrjú er nóg í dag og ég er mjög glaður með þetta,“ segir Björn. 

„Mér finnst að með hverjum leik sem við spilum erum við að finna það sem við erum að leita að betur og betur. Við vinnum Stjörnuna í síðasta leik og höldum hreinu, náðum að halda Blikum í einu marki í dag og varnarleikurinn okkar hefur verið bara mjög sterkur. Þegar þú ert svo með mann eins og Steven Lennon frammi þá veistu að ef hann fær færi þá skorar hann.“

Kristján Gauti Emilsson kom inn á sem varamaður á 77. mínútu, en þurfti að fara af velli skömmu síðar eftir aðeins 8 mínútna leik. Björn segir Kristján hafa meiðst en hann veit ekki hvers eðlis meiðslin eru. 

„Hann var virkilega góður þegar hann kom inn á en en var eitthvað óheppinn og þurfti að hætta. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt og við vonum að hann verði kominn á fullt ról á næstunni,“ segir Björn. 

FH-ingar eru nú í fjórða sæti deildarinnar með 23. stig. Björn segist fullur bjartsýni yfir komandi leikjum liðsins. 

„Við erum að fá fullt af leikjum á móti liðunum í kringum okkur á næstunni og við verðum að vinna þá. Það var gott að byrja á þessari hrinu hérna í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert