Þróttur neitaði að gefast upp í fallslagnum

Þróttur tekur á móti FH í kvöld.
Þróttur tekur á móti FH í kvöld. mbl.is//Hari

Þróttur og FH skildu jöfn, 2:2, í fallbaráttuslag í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Skoraði FH tvö mörk í fyrri hálfleik en Þróttur svaraði með tveimur í seinni hálfleik. 

FH var heilt yfir mun sterkari aðilinn fyrstu 20 mínúturnar og tók það Andreu Mist Pálsdóttur ellefu mínútur að koma Hafnfirðingum yfir. Skoraði hún þá beint úr hornspyrnu. Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 2:0 eftir aðra hornspyrnu er Jelena Tinna Kujundzic skoraði sjálfsmark.

Þróttur fékk gott færi á 39. mínútu en Mary Vignola skaut framhjá úr víti eftir að Stephanie Ribeiro féll innan teigs. Var staðan í hálfleik því 2:0, FH í vil. 

Þróttur byrjaði miklu betur í seinni hálfleik og var stanslaust í sókn þangað til Morgan Goff skoraði glæsilegt mark af 25 metra færi, stöngin inn. Áfram hélt sókn Þróttara og Mary Vignola bætti upp fyrir vítaspyrnuklúðrið með því að skora jöfnunarmarkið á 62. mínútu. 

Bæði lið fengu ágæt færi til að skora sigurmarkið í lokin en fleiri urðu mörkin ekki og liðin skipta með sér stigunum. Úrslitin þýða að FH er enn í sjöunda sæti, nú með 13 stig, og Þróttur fór upp úr fallsæti og upp í áttunda sæti með 12 stig. 

FH beið eftir jöfnunarmarkinu

Þrátt fyrir að FH hafi farið inn í hálfleikinn með 2:0-forystu var Þróttur lítið verri aðilinn. Þróttarar sköpuðu sér fín færi og hefðu með smá heppni getað verið liðið með tveggja marka forskotið í hálfleik. FH skoraði hins vegar eftir tvær hornspyrnur á meðan Þróttur nýtti færin illa. 

Þróttarar voru svo með öll völd í seinni hálfleik og var engu líkara en FH væri að bíða eftir að Þróttur myndi jafna metin. Eftir jöfnunarmarkið tók FH við sér og bæði lið fengu færi til að skora sigurmark. Þegar uppi er staðið er jafntefli sanngjörn úrslit. 

Andrea Mist Pálsdóttir hefur svo sannarlega reynst betri en engin og réðu Þróttarar lítið við spyrnurnar hennar. Þróttur var hins vegar sterkari í opnum leik, en liðið spilaði vel eins og oft áður í sumar á meðan FH heldur áfram að bæta sig. 

Eitt stig gæti reynst dýrmætt

Í harðri fallbaráttu gæti stigið sem bæði lið fengu reynst dýrmætt. Þróttur hefur aðeins tapað einum leik af síðustu þremur. Þrátt fyrir að jafnteflin séu ansi mörg, hefur Þróttur gert vel í að tapa fáum leikjum. 

Á sama tíma er FH að hrökkva í gang háréttum tíma og hefur liðið aðeins apað einum af síðustu fimm og unnið þrjá þeirra. Bæði lið eru langt frá því að bjarga sér frá falli, enda FH aðeins einu stigi frá fallsæti og Þróttur með jafnmörg stig og Þór/KA sem er í fallsæti. 

Það ætti að vera gott fyrir sjálfstraustið að vera fyrir ofan fallsætin þegar bæði lið eiga aðeins fjóra leiki eftir. Þau þurfa hins vegar að treysta á að KR vinni ekki of marga leiki, en KR-ingar eiga þrjá leiki til góða. 

Þróttur R. 2:2 FH opna loka
90. mín. Mary Alice Vignola (Þróttur R.) fer af velli Fór mögulega úr axlarlið. Vonandi ekki eins alvarlegt og það lítur út fyrir að vera.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert