Hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Fylki

Valdimar Þór Ingumundarson hefur verið besti leikmaður Fylkis í sumar.
Valdimar Þór Ingumundarson hefur verið besti leikmaður Fylkis í sumar. Kristinn Magnússon

Knattspyrnukappinn Valdimar Þór Ingimundarson hélt til Noregs í morgun en hann er á leið til norska úrvalsdeildarfélagsins Strömsgodset frá uppeldisfélagi sínu Fylki.

Valdimar Þór var í byrjunarliði Fylkismanna sem töpuðu 2:0-gegn KA á Greifavelli á Akureyri í sextándu umferð úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildarinnar, í gær.

Fylkismenn tilkynntu í síðustu viku að félagið hefði samþykkt tilboð norska félagsins í Valdimar Þór en hann er 21 árs gamall.

Hann hefur verið besti leikmaður Fylkis á tímabilinu, skorað 8 mörk í fjórtán leikjum í efstu deild en hann á að baki 53 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað sautján mörk.

Þá á hann að baki 5 landsleiki fyrir U21-árs landslið Íslands en Valdimar mun ganga undir læknisskoðun hjá norska félaginu og ef allt gengur eftir skrifa undir samning við félagið á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert