Hvorugt liðið nógu gott til að halda sér uppi

Frá Vivaldivellinum í kvöld.
Frá Vivaldivellinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grótta og Fjölnir skildu jöfn, 2:2, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Er Grótta nú sjö stigum frá öruggu sæti í deildinni og sigurlausir Fjölnismenn níu stigum frá öruggu sæti. 

Lítið var um færi í fyrri hálfleiknum en Orri Þórhallsson nýtti eitt slíkt afar vel á 21. mínútu þegar hann fékk boltann óvænt í teignum og skoraði af öryggi framhjá Hákoni Rafni Valdimarssyni. 

Gróttumönnum tókst ekki að koma boltanum í burtu eftir laglega sókn og Peter Zachán skaut í Sigurvin Reynisson fyrirliða Gróttu og þaðan fór hann til Orra sem skoraði. Var það eina virkilega góða færi fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi því 1:0, Fjölni í vil. 

Var síðari hálfleikurinn með rólegasta móti þangað til Grótta fékk horn á 64. mínútu. Óskar Jónsson tók hornið og setti boltann beint á kollinn á Pétri Theodóri Árnasyni sem skallaði í netið af stuttu færi. 

Staðan var 1:1 í örfá augnablik því strax í næstu sókn slapp Jón Gísli Ström inn fyrir og Hákon Rafn í marki Gróttu tók hann niður og vítaspyrna dæmd. Jóhann Árni Gunnarsson fór á punktinn og skoraði af öryggi og kom Fjölni í 2:1. 

Þannig var staðan fram á 84. mínútu þegar Grótta fékk aðra hornspyrnu. Kristófer Orri tók spyrnuna og hinn danski Tobias Sommer skallaði boltann í netið í sínum fyrsta leik með Gróttu. 

Grótta skoraði mark sem dæmt var af í blálokin og Fjölnismenn vildu fá víti í síðustu sókninni en mörkin urðu ekki fleiri og skipta liðin með sér stigunum. 

Geta farið að kveðja

Eftir leikinn er Grótta sjö stigum frá öruggu sæti og Fjölnir níu stigum frá öruggu sæti. Grótta vann Fjölni í fyrri umferðinni og er það eini sigur liðsins á meðan Fjölnir er án sigurs. Þarf því ansi mikið að breytast til að þau eigi einhvern möguleika á að halda sér upp í deild þeirra bestu. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að hvorugt liðið er nægilega gott til að halda sér uppi. Leikmannahóparnir eru ekki nægilega sterkir og örfáir leikmenn beggja liða sem kæmust í önnur lið í efstu deild. Fjölnir missti þrjá bestu leikmennina sína fyrir mót og Grótta missti Óskar Hrafn þjálfarann sinn til Breiðabliks. 

Ef Fjölnir væri enn þá með Bergsvein Ólafsson, Rasmus Christiansen og Albert Brynjar Ingason hefði tímabilið samt orðið erfitt. Ef Óskar Hrafn hefði enn verið á hliðarlínunni hjá Gróttu hefði tímabilið samt verið erfitt. 

Eftir að liðin misstu þessa mikilvægu hlekki virðist verkefnið nánast ómögulegt og geta þau farið að undirbúa sig að kveðja deild þeirra bestu. Þau geta huggað sig við það að sigurleikirnir í 1. deildinni verða fleiri. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grótta 2:2 Fjölnir opna loka
90. mín. Axel Freyr Harðarson (Grótta) á skot framhjá Boltinn berst til hans eftir hornið en skotið rétt framhjá. Fáum við dramatískt sigurmark?
mbl.is