Við erum alveg gáttaðir

Frá leiknum á Seltjarnarnesi í kvöld.
Frá leiknum á Seltjarnarnesi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum mjög svekktir. Það er langt síðan við unnum á heimavelli og langt síðan við unnum í deildinni. Það hefði verið gott að fá þrjá punkta hérna,“ sagði Pétur Theódór Árnason framherji Gróttu í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli við Fjölni í botnslag Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta í kvöld. 

Grótta skoraði bæði mörkin í sín í seinni hálfleik úr hornspyrnum eftir að Fjölnir komst tvívegis yfir. „Við vorum ekki nógu góðir að sækja á þá í fyrri hálfleik. Það var allt annað að sjá okkur í seinni hálfleik og það hefði verið sætt að stela þessu í lokin. Við erum góðir í föstum leikatriðum og að sjálfsögðu reynum við að nýta það. Það dugði ekki í dag.“

Sigurvin Reynisson fyrirliði Gróttu setti boltann í netið í blálokin og hélt hann væri að tryggja sínu liði stigin þrjú. Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdi markið hins vegar af. „Dómarinn vildi meina að boltinn hafi farið í höndina á honum en það veit enginn í liðinu í hvaða hönd þetta fór. Við erum alveg gáttaðir. Við þurfum á þessum stigum að halda.“

Grótta er sjö stigum frá öruggu sæti eftir leikinn þegar átta leikir eru eftir og staðan því erfið. „Við verðum bara að halda áfram, það eru átta leikir eftir og nóg af stigum í boði. Það er leikur á Skaganum á sunnudaginn og við verðum að fá eitthvað út úr þeim leik,“ sagði Pétur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert