Við erum ekkert hættir

Frá leiknum á Seltjarnarnesi í kvöld.
Frá leiknum á Seltjarnarnesi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var fúlt að tapa stigum í þessum leik,“ sagði svekktur Jón Gísli Ström framherji Fjölnis í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli Fjölnis og Gróttu í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Grótta fékk afar fá færi í kvöld en bæði mörkin komu eftir hornspyrnur. „Við vorum miklu betri aðilinn í þessum leik en gefum þeim tvö auðveld mörk eins og oft í sumar. Ég er hundfúll,“ sagði Jón og bætti við að Fjölnismenn ættu meira skilið. 

„Við mættum hungraðir til leiks og vildum spila boltanum. Við áttum skilið þrjú stig í þessum leik en þeir eru góðir úr föstum leikatriðum. Við vorum búnir að fara vel yfir þau, en það var ekki nóg. Við hefðum átt að verjast þessum hornum og nýta færin okkar betur.“

Fjölnir er nú níu stigum frá öruggu sæti þegar liðið á átta leiki eftir. „Þetta er erfitt en við höfum trú á okkar hóp. Við erum ekkert hættir og við munum mæta í alla leiki til að vinna þá og sjá hvað gerist,“ sagði Jón Gísli. 

mbl.is