Áttunda jafntefli Eyjamanna

Gary Martin var í byrjunarliði Eyjamanna í dag en tókst …
Gary Martin var í byrjunarliði Eyjamanna í dag en tókst ekki að skora. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV gerði sitt áttunda jafntefli í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, þegar liðið fékk Leikni frá Fáskrúðsfirði í heimsókn á Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum í sextándu umferð deildarinnar í dag.

Leiknum lauk með markalausu jafntefli en Eyjamenn voru sterkari aðilinn í leiknum. Þeir fengu fjölda færa en tókst ekki að koma boltanum í netið. Leiknismenn ógnuðu einna helst úr skyndisóknum og fengu fínt marktækifæri í uppbótartíma en inn vildi boltinn ekki og þar við sat.

ÍBV er með 26 stig í fjórða sæti deildarinnar, 6 stigum minna en topplið Fram sem á leik til góða á ÍBV. Leiknismenn eru í ellefta sætinu með 12 stig, stigi frá öruggu sæti.

Þá er Vestri komið í sjötta sæti deildarinnar eftir 2:1-sigur gegn Magna á Olísvellinum á Ísafirði. 

Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik en Vladimir Tufegdzic og Pétur Bjarnason skoruðu mörk Vestra áður en Tómas Arnarson minnkaði muninn fyrir Magna undir lok fyrri hálfleiks.

Vestri er með 23 stig, jafn mörg stig og Þór, en Magni er í neðsta sæti deildarinnar með 9 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti. 

Markaskorarar fengnir af úrslit.net.

mbl.is