Lykilmenn toppliðsins fjarverandi gegn Stjörnunni

Kristinn Freyr Sigurðsson og Haukur Páll Sigurðsson taka út leikbann …
Kristinn Freyr Sigurðsson og Haukur Páll Sigurðsson taka út leikbann gegn ÍA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukur Páll Sigurðsson og Kristinn Freyr Sigurðsson, lykilmenn Vals í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, verða báðir í leikbanni vegna gulra spjalda þegar liðið mætir Stjörnunni næsta sunnudagskvöld.

Þetta kom fram á vikulegum fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í dag. Þar sem bönn vegna gulra spjalda taka gildi á hádegi á föstudegi geta þeir spilað gegn ÍA á fimmtudaginn en verða í banni á sunnudag.

Þá missa Seltirningarnir Arnar Þór Helgason og Sigurvin Reynisson af leik Gróttu og ÍA á Skipaskaga hinn 20. september í 17. umferð deildarinnar vegna leikbanns.

Óliver Sigurjónsson er einnig á leið í leikbann og verður ekki með Breiðabliki þegar liðið fær KR í heimsókn 20. september næstkomandi. KR-ingurinn Arnþór Ingi Kristinsson tekur út leikbann í sama leik.

Akureyringurinn Sveinn Margeir Hauksson missir svo af leik KA og Fjölnis í Grafarvoginum, 19. september.

Eyjakonurnar Karlina Miksone, Miyah Watford og Olga Sevcova taka út eins leiks bann þegar liðið liðið heimsækir Breiðablik 26. september í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna.

Þá verður Andrea Mist Pálsdóttir, leikmaður FH, verður í banni þegar liðið fær Þór/KA í heimsókn 26. september og Árbæingurinn Stefanía Ragnarsdóttir missir af leiknum gegn sínu gömlu liðsfélögum í Val í Árbænum, 26. september.

Andrea Rut Bjarnadóttir, leikmaður Þróttar, tekur einnig út leikbann þegar Þróttur heimsækir Selfoss í fimmtándu umferð deildarinnar, 26. september.

Kvennalið ÍBV verður án þriggja sterkra lykilmanna gegn Breiðabliki.
Kvennalið ÍBV verður án þriggja sterkra lykilmanna gegn Breiðabliki. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is