Menn mjög ósáttir fyrir norðan

Arnar Grétarsson tók við liði KA um miðjan júlí.
Arnar Grétarsson tók við liði KA um miðjan júlí. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Framtíð Arnars Grétarssonar, þjálfara KA í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, hefur verið mikið í umræðunni í dag.

Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar á Stöð 2 Sport, tjáði áhorfendum sínum í þætti gærkvöldsins að þjálfarinn yrði ekki áfram við stjórnvölinn hjá KA á næstu leiktíð.

Valtýr Björn Valtýsson, umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Mín skoðun á SportFM ræddi málið við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, í þætti sínum í dag.

„Síminn fór aðeins af stað, seinni partinn í gærkvöldi, og þetta voru heldur betur óvæntar fréttir sem við fengum þarna í beinni útsendingu í gær sem við vorum aðeins ósáttir við,“ sagði Sævar Pétursson í samtali við Mín skoðun á SportFM.

„Þetta var ekki eitthvað sem maður átti von á þegar maður settist niður til þess að horfa á sjónvarpið. Við erum mjög ósáttir með að það sé fullyrt í þessum þætti að Arnar hafi tilkynnt forráðamönnum KA að hann ætli sér ekki að halda áfram.

Við höfum ekki einu sinni átt þetta samtal og þegar við gerum samning við hann til að byrja með var gerður samningur við hann út tímabilið. Við vorum báðir sammála um að við myndum fyrst og fremst einbeita okkur að því að tryggja stöðu KA í deildinni, áður en við færum að ræða framhaldið,“ sagði Sævar meðal annars í samtali við Mín skoðun á SportFM.

mbl.is