Þjálfarinn fær að vera í húsinu

Fanndís Friðriksdóttir skoraði tvívegis gegn Lettum ytra en hún er …
Fanndís Friðriksdóttir skoraði tvívegis gegn Lettum ytra en hún er ekki í hópnum að þessu sinni þar sem að hún er barnshafandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, tekur út leikbann á morgun þegar liðið mætir Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli á morgun.

Þá er áhorfendabann á leiknum og þjálfarinn getur því ekki verið í stúkunni en þjálfarinn staðfesti á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í dag að hann fengi að fylgjast með leiknum úr fjarlægð.

„Ég fæ að vera á staðnum, í húsinu í það minnsta,“ sagði Jón Þór á fundinum.

„Sem betur fer þá erum við með mjög öflugt þjálfarateymi og liðið er vel undirbúið fyrir leikinn. Það eru 3 stig í boði á morgun og við ætlum okkur að taka þau enda skýrt markmið frá upphafi að við ætlum okkur til Englands í lokakeppnina. Við erum á heimavelli á morgun og þar er krafan alltaf að sækja til sigurs.“

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ánægður með sóknarleikinn ytra

Íslenska liðið vann 6:0-sigur gegn Lettum í Riga í fyrri leik liðanna ytra en Ísland er í 19. sæti heimslistans á meðan Lettarnir eru í 93. sæti.

„Það er með Lettana eins og öll önnur landslið. Það eru allir að fara af stað aftur eftir langt hlé. Það er langt síðan liðið hefur spilað og við þurfum að vera undirbúnar undir hvað sem er.

Við vorum mjög ánægð með það hvernig við útfærðum okkar sóknarleik í leiknum ytra og við höfum reynt að skerpa á þeim atriðum sem gengu vel í þeim leik í aðdraganda leiksins á morgun.

Við þurfum að ná aftur upp takti í okkar leik en það sem mestu máli skiptir er að við einbeitum okkur að okkur sjálfum og hugsum ekki of mikið um það sem aðrir eru að gera.“

Síðustu þrír leikir liðsins í undankeppninni verða allir á útivelli, gegn Svíþjóð, Slóvakíu og Ungverjalandi.

„Það er ekki ákjósanlegt að spila þrjá síðustu leikina á útivelli en þannig er nú staðan. Eins og ég hef marg oft komið inn á þá höfum við höfum við sterka kraktera og reynslu í hópnum til að takast á við ólík verkefni og ég hef því litlar áhyggjur af því,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is