Ágætt að anda með nefinu

Sigurður Egill Lárusson fagnar eftir að hafa komið Val í …
Sigurður Egill Lárusson fagnar eftir að hafa komið Val í 2:0. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

„Við erum frábærir í fyrri hálfleik, spilum þá sundur og saman og það er nánast bara eitt lið á vellinum fram að hlé,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, við mbl.is eftir 4:2-sigur á ÍA á Akranesi í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag.

Valur var 3:0-yfir í hálfleik en undir lok leiks var staðan orðin 3:2 og heimamenn voru ekki langt frá því að kreista fram jöfnunarmark áður en Kaj Leo i Bartalsstovu innsiglaði sigurinn með fjórða marki gestanna. „Við töluðum um það í hálfleik, Skagamenn gefast aldrei upp. Þeir koma út grimmir og við vorum ekki klárir.“

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var einhver þreyta í leikmönnum Vals?

„Við vorum ekki þreyttir, bara værukærir og komum ekki nógu vel stemmdir út í seinni hálfleik. Hoppum úr tæklingum og mætum þeim ekki í baráttunni. Þá er voðinn vís hér á Skaganum.“

Aðspurður hvort leikmenn Vals hafi mögulega vanmetið andstæðinginn í stöðunni 3:0 svaraði Heimir tæpitungulaust: „Já, mér fannst það.“

Skagamenn vildu vítaspyrnu á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar boltinn virtist fara í hönd leikmanns Vals, Rasmus Christiansen, inn í vítateig, en Guðmundur Ársæll Guðmundsson dómari dæmdi ekkert.

„Ég sá þetta ekki en held það sé ágætt að anda með nefinu og skoða þetta bara. Dómgæslan var mjög fín og það var jákvætt að Gummi lét ekki sífelld öskur Skagamanna hafa áhrif á dómgæsluna sína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert