Ákvörðun dómarans óskiljanleg og sorgleg

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.

„Ég er svekktur og hefði viljað fá eitthvað út úr þessum leik, eins furðulega og það hljómar eftir að hafa lent 3:0 undir gegn öflugu liði Vals,“ sagði svekktur Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir 4:2-tap gegn Val í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag.

„Mér fannst við eiga það skilið að ná stigi hérna í lokin, eins og síðari hálfleikurinn þróaðist og við áttum bara að fá víti,“ sagði Jóhannes í samtali við mbl.is eftir leik. Skagamenn voru 3:0-undir í hálfleik en börðust fyrir sínu eftir hlé, minnkuðu muninn í eitt mark og virtust svo eiga að fá vítaspyrnu í blálokin þegar boltinn virtist fara í hönd Rasmus Christiansen, varnarmanns Valsara.

„Aðstoðardómarinn kallar á dómara leiksins þegar Valsarinn ver boltann með hendinni inn í teig í restina. Hann kallar á hann ítrekað að dæma víti en Guðmundur Ársæll neitaði því. Það fannst mér sorglegt og eiginlega óskiljanlegt.“

„Ég er svekktur en líka stoltur af frammistöðu leikmannanna í seinni hálfleik. Það er ekki auðvelt að koma út í seinni og hafa trú og vilja til að keyra á lið eins og Valsarana. Ég er stoltur af því og við höfum trú á því sem við erum að gera. Næsti leikur er Grótta heima og við ætlum okkur þrjú stig þar,“ sagði Jóhannes Karl við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert