Hefðum getað skorað fleiri

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvívegis fyrir íslenska liðið í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvívegis fyrir íslenska liðið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjuðum leikinn af krafti og okkar leikplan virkaði mjög vel í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Ian Jeffs, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal eftir 9:0-sigur Íslands gegn Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti, leiddi með sex mörkum í hálfleik, og bætti svo við þremur mörkum til viðbótar í síðari hálfleik en Ian Jeffs stýrði liðinu í fjarveru Jóns Þórs Haukssonar sem tók út leikbann í kvöld.

„Planið var fyrst og fremst að sækja upp kantana og það gekk gríðarlega vel upp í fyrri hálfeik. Við skorum sex mörk og hefðum hæglega getað skorað fleiri.

Seinni hálfeikurinn þróaðist svo bara eins og hann gerði. Það er oft þannig þegar að þú skorar mikið í fyrri hálfliek þá dettur þetta stundum niður í þeim seinni sem það og gerði. Við náðum samt að rífa okkur upp og bæta við í síðari hálfleik og ég er mjög ánægður með það.“

Íslenska liðið fagnar marki í kvöld.
Íslenska liðið fagnar marki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var ekki að hugsa um Svía leikinn

Þjálfarinn tók lykilmenn af velli í siðari hálfleik en þrátt fyrir það ítrekar hann að hann hafi ekki verið byrjaður að hugsa um stórleikinn við Svía á Laugardalsvelli, hinn 22. september næstkomandi.

„Við erum ekkert byrjuð að hugsa um Svíaleikinn en það er næst á dagskrá. Leikurinn í kvöld var gegn Lettlandi og við vorum ekki að hugsa um Svíana þegar að við ákváðum að hvíla lykilmenn.

Markmiðið var fyrst og fremst að fylla boxið og reyna að bæta við nokkrum mörkum. Mér fannst það takast eftir að við duttum aðeins niður og núna hefst svo undirbúningurinn fyrir næsta leik sem er gegn Svíþjóð.“

Sveindís Jane Jónsdóttir spilaði sinn fyrsta landsleik í kvöld en hún skoraði tvívegis. Þá kom Barbára Sól Gísladóttir inn á sem varamaður og áttu þátt í tveimur mörkum Íslands.

„Mér fannst þær Sveindís og Barbára koma virkilega vel inn í þetta. Sveindís átti mjög góðan fyrri hálfeik og eins og allir aðrir datt hún aðeins niður i síðari hálfleik. Það var svo geggjað fyrir hana persónulega að skora tvö mark.

Þá kom Barbára kom vel inn í seinni hálfleik og ógnaði vel á hægri kantinum. Það er fyrst og fremst geggjað að fá þær inn í hópinn og ég er mjög ánægður með þær báðar,“ bætti Ian Jeffs við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert