KR-ingar eru úr leik

Kristján Flóki Finnbogason skoraði mark KR í dag.
Kristján Flóki Finnbogason skoraði mark KR í dag. mbl.is/Íris

KR er úr leik í Evrópudeild karla í knattspyrnu eftir 2:1 tap fyrir Flora í 2. umferð keppninnar á Lilleküla leikvanginum í Tallinn, höfuðborg Eistlands, í dag. Þar með eru öll fjögur íslensku liðin úr leik í keppninni þetta árið. 

Flora og KR töpuðu bæði í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu og færðust því yfir í Evrópudeildina. Flora er komið áfram í 3. umferð og leikur gegn Linfield frá Norður-Írlandi eða Floriana frá Möltu í næstu viku. 

KR-ingar fengu kjaftshögg í upphafi leiks. Fyrst þurfti Finnur Orri Margeirsson að fara meiddur af velli strax á 5. mínútu og mínútu síðar tók Flora forystuna. KR-ingar töpuðu boltanum á miðsvæðinu og Flora náði hraðri sókn sem leikmenn liðsins útfærðu vel. Miðherjinn Rauno Sappinen náði að keyra inn í teiginn og potaði boltanum utarlega í hægra hornið.

KR-ingar sóttu nokkuð eftir að þeir náðu áttum. Þeim tókst að koma boltanum í markið hjá Flora og það gerði Ægir Jarl Jónasson á 12. mínútu. Markið var dæmt af vegna rangstöðu en Ægir fylgdi vel eftir aukaspyrnu sem markvörður Flora varði frá Kristjáni Flóka Finnbogasyni. Þessi dómur gæti hæglega hafa verið rangur miðað við sjónarhornið sem sást í sjónvarpsútsendingunni. 

Kristján skaut hátt yfir úr góðri stöðu þremur mínútum síðar og Igonen markvörður Flora lokaði vel á Atla Sigurjónsson á markteignum eftir góða sókn KR á 24. mínútu. 

Á 36. mínútu tók KR hornspyrnu. Leikmenn Flora náðu að koma boltanum út úr teignum og fengu skyndisókn. Leikmenn KR voru fljótir að skila sér til baka og leikmenn Flora hægðu ferðina. Boltinn var þá sendur á Michael Lilander sem er greinilega með góða skottækni. Hann lék vaða nokkuð fyrir utan teig og skoraði með föstu skoti neðst í vinstra hornið. 

KR var því 2:0 undir að loknum fyrri hálfleik en heimamenn höfðu þá nýtt sín tækifæri afar vel. 

Flora hefur unnið 18 af 20 leikjum sínum í eistnesku deildinni og liðið kunni ágætlega að vinna úr þeirri stöðu sem upp var kominn í síðari hálfleik. Svo virtist sem möguleikar KR-inga væru úr sögunni á 58. mínútu þegar Ægi var vísað af velli en hann fékk þá gula spjaldið í annað sinn í leiknum. 

KR-ingum tókst þó að minnka muninn á 74. mínútu þegar Kristján Flóki skoraði laglegt skallamark eftir að Kennie Chopart sendi aukaspyrnu inn á vítateig Flora. 

Besta færi KR til að jafna kom í uppbótartíma en Stefán Árni Geirsson skallaði yfir af markteig eftir góðan undirbúning Kristins Jónssonar og Óskars Arnar Haukssonar sem kom inn á sem varamaður hjá KR. 

Flora Tallinn 2:1 KR opna loka
90. mín. Þremur mínútum er bætt við leiktímann.
mbl.is