Ógeðslega góðar

Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni á Laugardalsvelli í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum búnar að fara mjög vel yfir þær og þeirra leik,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal eftir 9:0-sigur Íslands gegn Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við vissum að ef við myndum spila okkar leik og gera það sem lagt var upp með þá væri þetta í okkar höndum. Það var mikið svæði í köntunum sem við gerðum vel í að nýta og þá snérist þetta líka um að fá góðar fyrirgjafir inn í teiginn.

Það tókst vel til og okkur gekk mjög vel að klára færin líka þannig að það má alveg segja að það hafi allt gengið upp hjá okkur í dag,“ bætti Dagný við en hún fór á kostum í leiknum og skoraði þrennu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fór skynsömu leiðina

Dagný hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli og var þess vegna tekin af velli í hálfleik.

„Ég er betri núna en ég var til að byrja með en ég finn aðeins til ennþá. Þetta er samt sem áður allt á réttri leið en við ákváðum að fara skynsömu leiðina og taka mig af velli.

Það sem skiptir mestu máli núna er að vera fersk á móti Svíunum,“ sagði miðjumaðurinn en Ísland mætir Svíum í undankeppni EM 2021 á þriðjudaginn kemur á Laugardalsvelli.  

Dagný naut góðs af frammistöðu yngri leikmanna liðsins en þær Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lögðu upp sitt hvort markið fyrir hana í kvöld. 

„Það er virkilega gaman og gott fyrir okkur að fá þessar ungu stelpur inn í liðið. Karólína, Sveindís og Barbára stóðu sig allar frábærlega og þær gefa okkur þvílíkt mikið.

Það er eiginlega ekki hægt að tala um þær sem efnilega leikmenn í dag. Þær eru bara ógeðslega góðar.

Það er langt síðan við höfum fengið svona unga leikmenn inn í hópinn og þetta er virkilega kærkomið. Þetta sýnir okkur líka að framtíðin er virkilega björt,“ bætti Dagný við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert