Stigið gerir meira fyrir okkur en þá

Almarr Omarsson í bakgrunni í leiknum í dag.
Almarr Omarsson í bakgrunni í leiknum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Ég fékk færi til að klára þetta í lokin og því dálítið svekktur, en maður verður kannski líka að líta á björtu hliðarnar. Við förum manni færri og marki undir í hálfleikinn,“ sagði Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli gegn Fjölni í Grafarvoginum í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í dag.

„Þetta stig gerir meira fyrir okkur en þá, en auðvitað hefði ég viljað taka öll stigin,“ sagði Almarr enn fremur. Mikk­el Qvist fékk beint rautt spjald og gaf heimamönnum vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Jón Gísli Ström skoraði úr. Ásgeir Sigurgeirsson bjargaði hins vegar stigi fyrir gestina seint í leiknum.

„Það sem ég hef heyrt er að þeir séu í baráttu og okkar maður slái frá sér og hitti hann í andlitið. Ef það er rétt, þá er þetta bara heimskulegt og rautt spjald,“ sagði fyrirliðinn um rauða spjaldið sem Qvist fær.

„Mér fannst við betra liðið manni færri. Maður vill halda að við hefðum klárað þetta jafnmargir en hann er ungur og gerir mistök. Við fyrirgefum honum það.“

KA-menn hafa nú gert níu jafntefli í deildinni, flest allra liða. „Það eru þessi smáatriði, eins og færið mitt í lokin. Við erum ekki að skora nóg sjálfir en að sama skapi fáum við ekki á okkur mörg mörk. Þá vilja leikir oft enda með jafntefli!“ sagði Almarr Ormarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert