Tíu KA-menn gáfu Fjölni ekki fyrsta sigurinn

KA-maðurinn Rodrigo Gómez með boltann í leiknum í Grafarvogi í …
KA-maðurinn Rodrigo Gómez með boltann í leiknum í Grafarvogi í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fjölnir og KA skildu jöfn á Extra-vellinum í Grafarvoginum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag, 1:1. Fjölnir er á botni deildarinnar og hefur enn ekki unnið leik en ekkert lið hefur gert fleiri jafntefli en KA, nú níu talsins.

Jón Gísli Ström kom heimamönnum yfir á 35. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að Mikkel Qvist reif Sigurpál Melberg Pálsson niður inni í vítateig. Varnarmaðurinn fékk beint rautt spjald að launum og gestirnir því manni færri í tæpan klukkutíma.

Tíu KA-menn voru þó ekki á því að gefa Fjölnismönnum sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Þeir jöfnuðu metin á 76. mínútu. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði þá úr þröngu færi vinstra megin við markið eftir fyrirgjöf frá Hrannari Birni Bergmann.

Það ætti ekki að koma á óvart að leikurinn hafi að lokum endað jafn. Fjölnismenn vinna ekki leiki og í raun ekki KA heldur. Liðin eru með tvo sigra sín á milli í 29 leikjum í sumar. Fjölnir er áfram fast við botninn, sex stig og engir sigrar eftir 15 leiki. KA er í 8. sæti með 15 stig eftir 14 leiki. Stigið gerir vissulega meira fyrir norðanmenn, sem eru átta stigum frá fallsæti.

Fjölnir á heimaleik aftur í næstu umferð, tekur á móti ÍA og verður það síðasti, síðasti séns. Skagamenn eru í 10. sæti, átta stigum frá Fjölni, eiga leik til góða og það gegn Gróttu heima. Í raun gæti sigur Skagamanna þar farið langleiðina með að ákveða örlög Fjölnismanna sem eru líklegir til að fara beint aftur niður í fyrstu deildina.

Fjölnir 1:1 KA opna loka
90. mín. Lítið eftir og nú fer hver að verða síðastur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert