Toppliðið fékk skell - lygilegt jafntefli í Kópavogi

Leikmenn Einherja fagna vel og innilega.
Leikmenn Einherja fagna vel og innilega. Ljósmynd/Einherji

Topplið KV fékk 6:2-skell gegn Einherja á Vopnafirði í 3. deild karla í fótbolta í dag. Þrátt fyrir tapið er Vesturbæjarliðið enn í toppsætinu og stendur mjög vel að vígi ásamt Reyni úr Sandgerði um að vinna sér sæti í 2. deildinni.

Byrjaði dagurinn vel fyrir KV því Ingólfur Sigurðsson og Askur Jóhannsson komu Vesturbæingum í 2:0. Einherji svaraði hins vegar með tveimur mörkum frá Todor Hristov og einu frá Ruben Munoz, Heiðari Snær Ragnarssyni, Björgvin Geir Garðarssyni og Eið Orra Ragnarssyni. Vopnfirðingar kræktu sér þar með í dýrmæt stig sem komu þeim fimm stigum frá fallsæti deildarinnar.

KFG fór upp í þriðja sætið með sigri á grönnum sínum á Álftanesi á heimavelli, 1:0. Bjarni Pálmason skoraði sigurmarkið úr víti á lokamínútunni. KFG er þó enn átta og níu stigum á eftir KV og Reyni.

Ægir gerði góða ferð austur og vann 4:2-sigur á Hetti/Hugin í lykilleik botnbaráttunnar á Egilsstöðum. Anton Breki Viktorsson skoraði tvö mörk fyrir Ægi og Atli Rafn Guðbjartsson og Þorkell Þráinsson komust einnig á blað. Jesús Perez og Knut Mykelbust gerðu mörk Austfirðinga sem nú standa mjög illa að vígi í næstneðsta sætinu.

Augnablik og Elliði gerðu ótrúlegt 4:4-jafntefli í Fífunni í Kópavogi. Þorbergur Þór Steinarsson, Jón Veigar Kristjánsson, Sindri Þór Ingimarsson og Arnar Laufdal Arnarsson skoruðu allir fyrir Augnablik á fyrsta klukkutímanum, en Augnablik komst í 4:1. Skoraði Benedikt Daríus Garðarsson fyrsta mark Elliða. 

Í stöðunni 4:1 á 76. mínútu fékk Anton Breki Aronsson sitt annað gula spjald hjá Elliða. Tíu leikmenn Elliða gerðu sér lítið fyrir og skorðu þrjú mörk á síðustu tólf mínútunum og tryggðu sér stig. Gylfi Gestsson, Jóhann Andri Kristjánsson og Pétur Óskarsson gerðu þrjú síðustu mörk Elliða. 

Staðan: 

 1. KV 37
 2. Reynir S. 36
 3. KFG 28
 4. Augnablik 26
 5. Tindastóll 25
 6. Sindri 22
 7. Elliði 21
 8. Ægir 20
 9. Einherji 20
 10. Vængir Júpíters 18
 11. Höttur/Huginn 15
 12. Álftanes 13
mbl.is