Erum kannski betri en Blikarnir

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Tak og ekki tak á Blikunum, við erum einfaldlega búnir að vera góðir á móti þeim í sumar,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Breiðabliki í úrvalsdeild karla í knattsprynu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við höfum pressað þá hátt í þeim leikjum sem við höfum spilað við þá og í raun aldrei gefið þeim tækifæri til þess að spila þann leik sem þeir vilja spila, sem þeir eru mjög góðir í.

Strákarnir hafa gert það sem við höfum beðið þá um að gera og jafnvel aðeins meira og þeir sýndu það enn eina ferðina í dag. Það var mikil orka, kraftur og samheldni í liðinu og ég er fyrst og fremst afar stoltur af mínum leikmönnum.“

KR og Breiðablik hafa mæst þrívegis í sumar og alltaf hefur KR farið með sigur af hólmi.

„Við vorum tilbúnir að falla aðeins neðar og verjast þeim þannig en þegar að við komumst ofar á völlinn þá gerðum við virkilega vel í að pressa þá. Við fengum fleiri færi en þeir í þessum leik, þrátt fyri að þeir hafi verið meira með boltann.

Þeir vilja spila frá markmanni og út. Okkur hefur tekist vel til að loka á uppspil þeirra og kannski erum við bara betri en þeir.“

Atli Sigurjónsson sækir að Blikum á Kópavogsvelli í kvöld.
Atli Sigurjónsson sækir að Blikum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Tóku út mistökin

KR-ingar feng á sig tvö mörk á lokamínútunum gegn Stjörnunni í Vesturbæ í síðustu umferð deildarinnar og töpuðu leiknum 2:1.

„Við hentum frá okkur sigri gegn Stjörnunni síðast og það er dýrt. Við hentum líka frá okkur góðum möguleika í Evrópudeildinni í vikunni gegn Flora Tallinn. Við höfum ekki breytt um taktík eða neitt slíkt ef horft er til þessara tveggja leika.

Við höfum einfaldlega lagað þá hluti sem fóru ekki nægilega vel gegn Stjörnunni og Flora Tallinn þar sem við gefum ódýr mörk úr atriðum sem við eigum ekki að klikka á.

Það er augnablikskæruleysi sem hefur reynst dýrkeypt en við tókum það út í dag. Við vorum allir sammála um að gera ekki mistök í dag og þess vegna unnum við ofboðslega góðan sigur meðal annars,“ bætti Rúnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is