„Fengum skell í seinni hálfleik“

Þórður Gunnar Hafþórsson.
Þórður Gunnar Hafþórsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við fengum skell í seinni hálfleik. Eftir að FH komst yfir þá hrundi þetta hjá okkur,“ sagði Þórður Gunnar Hafþórsson sem lék vel fyrir Fylki í kvöld þegar liðið tapaði 1:4 fyrir FH í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu. 

Staðan var 0:0 að loknum fyrri hálfleik en FH var komið í 3:0 eftir rúmlega korter í síðari hálfleik. „Mér fannst við ekki  vera verri en þeir í þessum leik. Alla vega ekki fram að fyrsta markinu. En þegar við fórum framar á völlinn þá refsuðu þeir okkur. Þá keyrðu þeir hratt á okkur og allt í einu var staðan orðin 3:0. En fyrsta markið var ákveðin skellur því mér fannst þetta vera jafn leikur fram að því,“ sagði Þórður þegar mbl.is ræddi við hann í Árbænum í kvöld. 

Fylkir vann fyrri leik liðanna í Kaplakrika 13. júní 2:1 og þá skoraði Þórður en hann lagði upp mark Fylkis í kvöld. Þótti honum vera mikill munur á þessum tveimur leikjum? „Nei ekki beint. Við nýttum okkar færi og gerðum margt vel í Krikanum en þeir hefðu svo sem getað skorað fleiri mörk í þeim leik.“

Þétt er leikið í deildinni um þessar mundir og á fimmtudaginn tekur Fylkir á móti Víkingi. „Við hugsum bara um næsta leik og hann er strax á fimmtudaginn. Við erum með stóran hóp og menn þurfa að dreifa álaginu,“ sagði Þórður Gunnar ennfremur. 

mbl.is