Fred ætlar ekki að yfirgefa Safamýrina

Ásgrímur Helgi Einarsson formaður knattspyrnudeildar Fram og Fred Saraiva við …
Ásgrímur Helgi Einarsson formaður knattspyrnudeildar Fram og Fred Saraiva við undirritun samningsins í dag. Ljósmynd/Fram

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Fred Saraiva ætlar að leika áfram með Frömurum næstu árin þátt fyrir að hann hafi verið talsvert orðaður við úrvalsdeildarlið að undanförnu.

Fred leikur nú sitt þriðja ár með Fram í 1. deildinni og skrifaði í dag undir nýjan samning til næstu tveggja ára þannig að hann ætlar að leika með liðinu í það minnsta út keppnistímabilið 2022.

Fred sem er 24 ára gamall gekk til liðs við Fram fyrir keppnistímabilið 2018 frá brasilíska félaginu SC Sao Paulo og er því að leika sitt þriðja tímabil á Íslandi.  Hann hefur frá upphafi verið mikilvægur hlekkur í Framliðinu og hefur í heildina spilað 72 leiki og gert í þeim 26 mörk. Þar af eru 56 leikir og 17 mörk með liðinu í B-deildinni og þá skoraði Fred fjögur mörk í fimm leikjum Framara í bikarkeppninni á þessu ári.

Fred Saraiva í leik með Fram.
Fred Saraiva í leik með Fram. mbl.is/Íris

Hann var valinn besti leikmaður Fram á síðasta tímabili en þá spilaði hann 20 leiki í 1. deildinni og skoraði 8 mörk, auk þess að skora tvívegis í þremur bikarleikjum.

„Fred verið öflugur í að búa til tækifæri og leggja upp mörk fyrir félaga sína í liðinu og verið sérlega öflugur á yfirstandandi tímabili. Knattspyrnudeild Fram væntir mikils af Fred hér eftir sem hingað til og bindur miklar vonir við hans frammistöðu í Frambúningnum á næstu árum" sagði Ásgrímur Helgi Einarsson formaður knattspyrnudeildar Fram.

Framarar taka á móti Grindvíkingum á Framvellinum í Safamýri klukkan 19.15 en þar freista þeir þess að komast aftur í efsta sæti 1. deildar karla, Lengjudeildarinnar. Fred missir af þessum leik þar sem hann tekur út leikbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert