Hef engar afsakanir

Patrick Pedersen fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Vals.
Patrick Pedersen fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Vals. Ljósmynd/Þorsteinn

„Við vorum alveg hrikalega daprir,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, en lið hans beið sinn fyrsta ósigur, 5:1, í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar Valsmenn komu í heimsókn. „Við vorum hrikalega ólíkir sjálfum okkur, sundurslitnir og hvert einasta upphlaup þeirra endaði með marki,“ segir Rúnar Páll.

Hann segist varla hafa þekkt lið sitt á vellinum, enda hafði það einungis fengið á sig tíu mörk fyrir þennan leik. „Ég hef engar afsakanir varðandi hvað kom fyrir, við vorum bara ekki í gírnum í kvöld.“ 

Rúnar segir að lið sitt hafi komið beittari inn í síðari hálfleik. „Við þurftum enda að þétta raðirnar svo að við fengjum ekki alls herjar útreið,“ segir Rúnar Páll. Hann man þó ekki eftir því að hafa tapað svo stórt í deildarleik á Samsung-vellinum. Næsti leikur Stjörnumanna er gegn Blikum og Rúnar Páll segir að lið sitt muni þurfa að sýna af sér betri leik þar en í kvöld ef ekki eigi illa að fara. 

Þjálfarar Stjörnunnar settu inn á unga og óreynda knattspyrnumenn í síðari hálfleik, og var hinn 16 ára Adolf Daði Birgisson nálægt því að skora. „Mér fannst það bara frábært hjá strákunum og frábært fyrir þá að fá smjörþefinn af því að spila í Pepsi-deildinni. Þetta er næsta kynslóð, það sem koma skal í sumar og næsta sumar, þessir strákar,“ segir Rúnar Páll.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert