„Mikill stígandi í okkar leik“

Glódís Perla Viggósdóttir og Jón Þór Hauksson á fréttamannafundinum í …
Glódís Perla Viggósdóttir og Jón Þór Hauksson á fréttamannafundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Svava [Rós Guðmundsdóttir] meiddist aðeins á æfingu og það er kapphlaup við tímann hjá henni. Annars ættu allar að vera tilbúnar í slaginn,“ sagði Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, meðal annars á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag. 

Ísland mætir Svíþjóð á morgun í undankeppni EM 2022 en bæði liðin eru með fullt hús stiga í riðlinum. 

„Svava meiddist aðeins á æfingu og það er kapphlaup við tímann hjá henni. Annars ættu allar að vera tilbúnar í slaginn. Við höfum haft ágætan tíma til að meðhöndla leikmenn frá síðasta leik og erum með frábært starfsfólk sem hlúir vel að leikmönnum,“ sagði Jón Þór.

Spurður um hvort lið Svía væri líkamlega sterkt, til dæmis í samanburði við lið Þjóðverja sem lék á Laugardalsvelli fyrir tveimur árum sagði Jón Þór sænska liðið vera gott lið á alla kanta. „Ég ætla ekki að bera saman lið en Svíar eru með sterkan leikmannahóp. Þær eru líkamlega sterkar en eru fyrst og fremst gott lið á heildina litið. Eru góðar í föstum leikatriðum.  Liðið er vel samæft enda hafa þær verið lengi saman. Sænska liðið er bara gott lið á alla kanta. Við erum hins vegar í stakk búin að mæta því. Við erum einnig með lið sem er gott í föstum leikatriðum. Mikill stígandi hefur verið í okkar leik. Við erum full tilhlökkunar að taka á móti þessu liði.“

Blaðamaður Aftonbladet spurði Jón hversu mikið gildi það hefur að eiga leikmenn í sterkum deildum eins og í Frakklandi og Svíþjóð.

„Gott er fyrir okkur að eiga leikmenn í sterkustu deildum í Evrópu. Þær láta gott af sér leiða í landsliðshópnum og í íslenska hópnum eru sterkir persónuleikar. Þær eru góðar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur á Íslandi,“ sagði Jón Þór og var jafnframt spurður hvort hann ætti von á því að Svíar myndu breyta liðinu fyrir leikinn gegn Íslandi. 

„Ég á ekki von á miklum breytingum hjá Svíum en vegna kórónuveirunnar voru ekki spilaðir landsleikir lengi. Við þurfum því að hugsa meira um okkar lið.“

Spennandi að sjá ungu leikmennina

Miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir sat einnig fundinn. Ungir leikmenn fengu tækifæri gegn Lettlandi á dögunum þar sem íslenska liðið vann yfirburðasigur 9:0. 

„Það hefur spennandi að sjá ungu leikmennina koma inn í hópinn. Gaman var að sjá til þeirra á móti Lettlandi. Framtíðin er björt að mínu mati og þær eru tilbúnar í slaginn á þessum tímapunkti sem er aðalatriðið,“ sagði Glódís og hún á von á skemmtilegum leik gegn Svíum. Sjálf spilar hún í Svíþjóð og þekkir því vel til. 

„Ég held að þetta verði hörkuleikur. Tvö lið sem vilja sigur og þurfa á sigri að halda til að vinna riðilinn. Þær sænsku verða sennilega meira með boltann. Við munum reyna að verjast en viljum framkvæma ákveðna hluti þegar við fáum boltann. Þær eru með meiri hefð og þeirra lið er mjög vel skipulagt. En ég á von á skemmtilegum leik.“

Glódís segir íslenska liðið hafa tekið framförum hvað það varðar að halda boltanum og spilamennskan geti orðið enn betri á næstu árum. 

„Í gegnum árin hefur styrkur okkar verið stolt og barátta. Við leggjum okkur alltaf fram í öllum leikjum og það hefur ekki breyst. En við erum orðnar betri í því að halda í boltann en um leið höldum við í þau gildi sem hafa einkennt landsliðið. Ef framhald verður á því þá ætti liðið að halda áfram að bæta sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert