Sárt að skilja við Víking eftir í þessari stöðu

Óttar Magnús Karlsson er á leið frá Víkingum í víking …
Óttar Magnús Karlsson er á leið frá Víkingum í víking til Ítalíu. mbl.is/Sigurður Unnar

„Mér finnst  þetta í raun mjög svekkjandi úrslit, við náðum einhvern veginn ekki að nýta stöðurnar og færin sem við komumst í,“  sagði Óttar Magnús Karlsson markakóngur Víkinga eftir 1:1 jafntefli við HK í Víkinni í kvöld þegar liðin mættust í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi Max deildinni.

„Við fengum fullt af færum en einhvern vantaði herslumuninn og trúna á að gera út um leikinn.  Við leggjum heilt yfir okkar leiki upp þannig að fara á mótherjana af krafti og við berjumst vel og allir að leggja sig fram en það vantaði bara að reka endahnútinn á sóknirnar.“ 

Óttar Magnús er á leið í atvinnumennsku hjá Venezia á Ítalíu og fer að líkindum utan síðar í vikunni og mun því ekki ná leiknum við Fylki á fimmtudaginn. Hann er markahæstur Víkinga í deildinni og hefur átt gott tímabil en rær nú á önnur mið. „Mér líst mjög vel á að fara út en sárt að skilja við Víking í þessari stöðu en sjálfur er ég spenntur og til í slaginn,“  sagði Óttar Magnús .  

mbl.is