Sjötti sigur FH í sjö leikjum

FH vann Fylki í Árbænum.
FH vann Fylki í Árbænum. mbl.is/Arnþór Birkisson

FH vann 4:1 þegar Fylkir og FH áttust við í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Fylkir er í fimmta sæti með 22 stig og FH í öðru sæti með 29 stig.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en stíflan brast í síðari hálfleik eins og segir í stuðningsmannalagi Fylkis. Það voru þó FH-ingar sem skoruðu fjórum sinnum í síðari hálfleik og fara heim með stigin þrjú. 

Fyrirliðinn Björn Daníel Sverrisson kom FH í 2:0 með tveimur mörkum á 48. og 59. mínútu. Ólafur Karl Finsen bætti þriðja markinu við aðeins tveimur mínútum síðar. Arnór Gauti Ragnarsson minnkaði muninn fyrir Fylki á 64. mínútu en sjálfsmark á 69. mínútu réði endanlega úrslitum. 

Úrslit leiksins eru kannski svolítið undarleg ef menn skoða tölurnar yfir skottilraunir. Fylkismenn áttu sautján tilraunir og bæði lið gátu því skorað mörg mörk. Gunnar Nielsen lék mjög vel í marki FH og það getur virkað sérstakt að nefna það sérstaklega þegar lið vinnur 4:1. En það á alveg við í þessu tilfelli. 

FH-liðið vann sjötta leikinn af síðustu sjö í deildinni sem segir allt um hversu vel liðið spilar um þessar mundir. Eftir að liðið komst yfir þá átti maður ekki von á því að liðið myndi sleppa hendinni af þeirri stöðu. Þeir fylgdu því vel á eftir og komust í 3:0. Eftir það var orðið erfitt fyrir Fylki að ná einhverju út úr leiknum. 

Leikurinn var mjög opinn í fyrri hálfleik og þá áttu bæði liðin sín tækifæri. Þórður Gunnar Hafþórsson var mjög ógnandi hægra megin hjá Fylki og heimamenn völdu hann mann leiksins hjá Fylki. Það virðist henta honum vel að spila gegn FH því hann skoraði í fyrri leik liðanna í Kaplakrika sem Fylkir vann 2:1. 

Fylkismenn þurfa að venjast því að vera án Valdimars Þórs Ingimundarsonar sem er farinn í atvinnumennsku. Það gæti tekið tíma enda hefur hann verið hættulegasti maður liðsins síðustu tvö tímabil. En þeir þurfa að vera snöggir að finna nýjar ógnanir enda er stutt á milli leikja. 

FH-ingar mæta Valsmönnum á fimmtudag en þessi lið eiga enn eftir að mætast. Sú viðureign verður mjög fróðleg enda bæði lið búinn að hala inn stigin undanfarnar vikur. Leikurinn í kvöld gæti haft mjög góð áhrif á Björn Daníel sem skoraði tvívegis. Gerði vel í báðum tilfellum og mörkin ólík. Hið fyrra var snyrtilegt skallamark eftir hornsspyrnu en hið síðara fast skot vel utan teigs. Með Eggerti og Þóri á miðjunni þá er sá möguleiki fyrir hendi að Björn sé atkvæðamikill í sóknarleik FH. Eins er auðvitað gott fyrir Ólaf Karl að skora enda kom hann til liðsins á miðju tímabili. 

Fylkir 1:4 FH opna loka
90. mín. Baldur Sigurðsson (FH) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert