Valsmenn gengu frá Stjörnunni í fyrri hálfleik

Valsmaðurinn Kaj Leo i Bartalsstovu skrefinu á undan Stjörnumanninum Guðjóni …
Valsmaðurinn Kaj Leo i Bartalsstovu skrefinu á undan Stjörnumanninum Guðjóni Baldvinssyni í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Arnþór

Valsmenn unnu frækinn sigur á Stjörnunni á útivelli, 5:1, í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Úrslitin voru þegar ráðin í fyrri hálfleik, en þar settu Valsmenn fimm mörk gegn engu frá heimamönnum.

Valsmenn byrjuðu þennan leik af miklum krafti og ekki leið á löngu áður en Patrick Pedersen skoraði fyrsta mark Valsmanna, en það kom á 4. mínútu eftir hornspyrnu Valsmanna. Lasse Petry fékk boltann á góðum stað en Haraldur Björnsson náði ekki að halda knettinum. Patrick lúrði á markteignum og gat varla annað en skorað. 

Stjörnumenn reyndu af veikum mætti að vinna sig aftur inn í leikinn og heimtuðu vítaspyrnu á 17. mínútu. Í staðinn komust Valsmenn hratt upp hinum megin og Aron Bjarnason komst einn í gegn á móti Haraldi markverði, sem felldi hann. Patrick skoraði af fádæma öryggi úr spyrnunni og róðurinn orðinn þungur fyrir heimamenn. 

Flugeldasýning Valsmanna hélt áfram í fyrri hálfleik, og fjórum mínútum síðar var staðan orðin 3:0 fyrir gestina. Var þar að verki Aron Bjarnason, sem nýtti sér hraða sinn til að stinga vörn Stjörnumanna af og smellti honum í fjærhornið vinstra megin. 

Valsmenn bættu svo við tveimur mörkum á 31. og 33. mínútu.  Aron átti fyrra markið, þar sem hann komst aftur einn inn fyrir eftir stoðsendingu frá Patrick Pedersen og vippaði yfir Harald í markinu.  Gamla brýnið Birkir Már Sævarsson skoraði svo fimmta mark Valsmanna eftir snyrtilegt samspil. 

Stjörnumenn reyndu að minnka muninn í síðari hálfleik og náðu því loksins á 63. mínútu. Valsmenn héldu hins vegar Stjörnunni vel í skefjum, en þjálfarateymi Stjörnunnar leyfði ungum mönnum að fá blóð á tennurnnar í seinni hálfleik. Sýndu þeir allir ágætis takta, en úrslitin voru að sjálfsögðu ráðin. Adolf Daði Birgisson, sem fæddur er 2004, komst einna næst því að skora, en Hannes Þór var vandanum vaxinn í marki Vals.

Yfirburðir Valsmanna voru fáheyrðir, og sérstaklega þá í fyrri hálfleik. Þá skal þess getið að Valsmenn skoruðu þrjú mörk til viðbótar þessum fimm, sem dæmd voru af vegna rangstöðu. 

Með sigrinum fara Valsmenn upp í 37 stig og hafa þeir komið sér ansi þægilega fyrir á toppi deildarinnar. Stjörnumenn, sem voru ósigraðir fyrir leikinn, þurfa hins vegar að bæta leik sinn mjög fyrir næsta leik gegn Breiðablik. 

Stjarnan 1:5 Valur opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er tvær mínútur.
mbl.is