Lykilleikur undankeppninnar

Sara Björk Gunnarsdóttir skorar og kemur Íslandi yfir 1:0 í …
Sara Björk Gunnarsdóttir skorar og kemur Íslandi yfir 1:0 í leiknum árið 2014. Carola Söberg markvörður og Nilla Fischer ná ekki að koma í veg fyrir það. Ljósmynd/KSÍ

Erfiðasta verkefni undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta til þessa bíður íslenska kvennalandsliðsins í kvöld. Bronsverðlaunaliðið úr síðustu heimsmeistarakeppni, lið Svía, mætir þá á áhorfendalausan Laugardalsvöllinn en þetta er uppgjör tveggja efstu liðanna í F-riðli undankeppninnar og eru bæði með 12 stig af 12 mögulegum eftir fjóra leiki.

Aðeins eitt lið er öruggt áfram úr hverjum riðli og því er sérlega mikið í húfi. Um er að ræða sannkallaðan lykilleik riðilsins því niðurstaða hans mun ráða gríðarlega miklu fyrir bæði lið. Þrjú bestu liðin í öðru sæti undanriðlanna fara líka beint á EM á Englandi og til þess að verða eitt þeirra þarf íslenska liðið líklega að taka stig af Svíum. Besta leiðin er reyndar einfaldlega að sigra þá!

Og það hefur íslenska landsliðinu tekist tvisvar í fimmtán viðureignum þjóðanna. Ísland vann síðasta leikinn gegn Svíum, lagði þá óvænt að velli, 2:1, í leik um bronsverðlaunin í Algarve-bikarnum í Portúgal árið 2014 þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu snemma leiks. Antonia Göransson kom Svíum á blað í uppbótartíma leiksins.

Margar með frá árinu 2014

Sjö leikmenn sem nú eru í íslenska landsliðshópnum tóku þátt í þeim leik en auk Söru voru það Glódís Perla Viggósdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Rakel Hönnudóttir.

Átta af Svíunum sem mæta Íslandi í kvöld tóku þátt í þessum tapleik gegn Íslandi árið 2014, þar á meðal fyrirliðinn Caroline Seger, varnarjaxlinn Nilla Fischer og hin snjalla Kosovare Asllani, núverandi leikmaður Real Madrid, sem allar hafa verið burðarásar í sænska liðinu um árabil.

Svíar nánast með HM-liðið

Nánast engar breytingar hafa orðið á sænska liðinu frá því á HM í fyrra þegar það vann England 2:1 í leiknum um bronsið. Hingað til Íslands eru mættar 20 af þeim 23 konum sem skipuðu HM-hóp Svíanna á síðasta ári.

Greinina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert