Lykilmaður KA í tveggja leikja bann

Mikkel Qvist
Mikkel Qvist Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA verður án danska varnarmannsins Mikkel Qvist í næstu tveimur leikjum liðsins í Pepsi Max-deildinni en Qvist fékk sitt annað rauða spjald í sumar í 1:1-jafntefli gegn Fjölni á laugardaginn var. Missir Qvist af leikjum gegn HK og Gróttu. Ívar Örn Jónsson verður ekki með HK gegn KA vegna rauða spjalsins sem hann fékk gegn Víkingi í gær. 

Stjarnan verður án fyrirliðans Alex Þórs Haukssonar er liðið heimsækir HK á sunnudaginn kemur. Alex fékk sína fjórðu áminningu á tímabilinu er Stjarnan tapaði fyrir Val í gærkvöld. Valgeir Valgeirsson fékk sína fjórðu áminningu gegn Víkingi og leikur ekki með liðinu gegn Stjörnunni á sunnudag. 

Elfar Freyr Helgason hjá Breiðabliki verður ekki með liði sínu gegn Val og Lasse Petry ekki með Val í sama leik. Skagamennirnir Hallur Flosason og Sindri Snær Magnússon verða ekki með ÍA gegn Víkingi og þá missir Kennie Chopart af leik KR og Fylkis.

Fram verður án fjögurra leikmanna er liðið heimsækir Þór til Akureyrar í Lengjudeild karla Albert Hafsteinsson, Aron Þórður Albertsson, Magnús Þórðarson og Unnar Steinn Ingvarsson verða allir í leikbanni. Gæti það reynst dýrkeypt fyrir Framara sem eru í mikilli toppbaráttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert