Landsliðskona á förum frá Val

Hallbera Guðný Gísladóttir er á leiðinni í nám í Svíþjóð.
Hallbera Guðný Gísladóttir er á leiðinni í nám í Svíþjóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði Íslandsmeistara Vals, er á förum frá Íslandsmeisturum Vals samkvæmt heimildum mbl.is.

Hallbera, sem er 34 ára gömul, mun klára tímabilið með Valskonum en heldur utan til Svíþjóðar í nám eftir áramót. Hún stefnir á að spila áfram fótbolta í Svíþjóð en óvíst er með hvaða liði hún mun leika. Þá er óvíst hvort hún muni leika með Valsliðinu næsta sumar.

Hallbera er uppalin hjá ÍA á Akranesi og hóf feril sinn árið 2005. Hún þekkir vel til í Svíþjóð eftir að hafa leikið með bæði Piteå frá 2012 til ársins 2013 og Djurgården tímabilið 2017 þar sem hún stóð sig vel.

Þá er hún á meðal leikjahæstu landsliðskvenna Íslands frá upphafi en hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2008 og á að baki 114 landsleiki. Aðeins Sara Björk Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir hafa leikið fleiri leiki.

mbl.is