Að heiman í 3 og hálfan sólarhring á átta dögum

Frá leik hjá Leikni gegn Aftureldingu í sumar.
Frá leik hjá Leikni gegn Aftureldingu í sumar. mbl.is/Sigurður Unnar

Ekki verður annað sagt en að leikjatörnin hjá Leikni frá Fáskrúðsfirði hafi verið ansi krefjandi að undanförnu en karlalið félagsins í knattspyrnu leikur í 1. deild. 

Laugardaginn 12. september lék liðið í Reykjavík gegn Leikni í Breiðholtinu. Miðvikudaginn 16.september fór liðið til Vestmannaeyja og lék gegn ÍBV. Ansi strembinni (rúmri) viku lauk svo með leik á Ísafirði gegn Vestra sunnudaginn 20. september. 

Fyrir lesendur sem átta sig á staðsetningu þessara sveitarfélaga sem um ræðir má sjá í hendi sér að um gífurleg ferðalög er að ræða fyrir leikmenn Leiknis á skömmum tíma. 

Flogið var í leikinn í Reykjavík og sluppu Austfirðingar við kostnað við gistingu því þeir náðu að komast fram og til baka samdægurs. 

Lagt var af stað með bílaleigubílum seinni part þriðjudags í leikinn gegn ÍBV. Komið var í Mýrdalinn um kvöldið og gist um nóttina. Siglt til Eyja frá Landeyjahöfn daginn eftir. Sama leið var farin til baka og skiluðu menn sér heim klukkan tvö um nóttina. 

Erfitt er að finna meiri fjarlægð á milli liða á Íslandi en liði Djúpmanna og liðum Austfirðinga. Þegar þau eru í sömu deild fylgir því kostnaður og fyrirhöfn. Spár um suðaustan áttir gerðu útlit fyrir flug til Ísafjarðar erfitt en til stóð hjá Leiknismönnum að keyra til Akureyrar og fljúga þaðan í Skutulsfjörðinn með leiguflugi. Þeirri áætlun var breytt í flug til Reykjavíkur og keyrt þaðan til Ísafjarðar þar sem Vestri spilar heimaleiki sína. 

Keyrðu Austfirðingar norðurleiðina til baka með viðkomu á Akureyri. Keyrðu því 860 kílómetra og komu heim um miðnætti á sunnudagskvöldinu.  

Fáskrúðsfirðingar hafa tekið saman að Leiknisliðið hafi því verið á ferðalagi í 87 klukkustundir á þessum átta sólarhringum eða meira en þrjá og hálfan sólarhring. 

Á heimasíðu félagsins eru menn þó ekki að kveinka sér um of því þar segir: „Við höfðum heppnina ekki með okkur þegar leikjaplani Lengjudeildarinnar var breytt vegna Covid.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert