Augnablik sem aldrei gleymist

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék sinn fyrsta keppnisleik með A-landsliðinu gegn …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék sinn fyrsta keppnisleik með A-landsliðinu gegn Lettlandi á fimmtudeginum fyrir viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti alls ekki von á því að vera valin í byrjunarlið íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á dögunum þegar liðið mætti bæði Lettlandi og Svíþjóð á Laugardalsvelli í undankeppni EM.

Karólína, sem er 19 ára gömul, var að leika sína fyrstu keppnisleiki með kvennalandsliðinu en hún hefur verið hluti af A-landsliðshópnum í undankeppninni og lék sinn fyrsta A-landsleik í vinnáttuleik gegn Finnum í Espoo í Finnlandi þegar hún kom inn á sem varamaður í júní 2019.

Karólína átti frábæran leik gegn bæði Lettum og Svíum en gegn Lettum var hún á skotskónum í 9:0-sigri íslenska liðsins, ásamt því að leggja upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína.

Knattspyrnukonan unga stefnir hátt og í október 2019 setti hún sér það markmið að byrja A-landsleik í október 2020 en það var faðir hennar, Vilhjálmur Kári Haraldsson, sem vakti athygli á þessu á Twitter í gær.

„Ég setti mér þetta markmið í október á síðasta ári í íþróttasálfræðiáfanga í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði,“ sagði Karólína Lea í samtali við mbl.is. „Þetta var ákveðið verkefni þar sem við áttum að setja okkur nokkur skammtíma markmið og svo langtíma markmið líka í þessum tiltekna áfanga.

Ég spila minn fyrsta A-landsleik í júní 2019 gegn Finnum þegar að ég kem inn á sem varamaður og eftir þann leik átta ég mig á því að ég er ekkert það langt frá liðinu. Þau langtíma markmið sem maður setur sér eiga að vera erfið en þau þurfa á sama tíma að vera raunhæf líka.

Ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti að leggja helling á mig til þess að ná þessu markmiði en að sama skapi var það raunhæft líka. Augnablikið þegar ég fékk að vita að ég yrði í byrjunarliðinu gegn Lettum og svo gegn Svíum er svo augnablik sem ég mun aldrei gleyma,“ sagði Karólína sem á að baki 76 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 10 mörk.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur verið lykilkona í liði Breiðabliks í …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur verið lykilkona í liði Breiðabliks í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Óvænt ánægja

Karólína hefur verið lykilmaður í liði Breiðabliks undanfarin ár en liðið er í harðri baráttu við ríkjandi Íslandsmeistara Vals um Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég hef verið með þetta markmið mitt á bakvið eyrað alveg frá því ég skrifaði það niður á blað fyrir tæpu ári síðan. Landsliðsþjálfarinn fylgist með öllum leikjum þannig að þú þarft að standa þig vel ef þú ætlar að fá tækifæri með A-landsliðinu.

Að sama skapi átti ég alls ekki von á því að byrja þessa landsleiki gegn Lettlandi og Svíþjóð sem dæmi þannig að þetta var afar óvænt. Ég er engu að síður virkilega þakklát fyrir það traust sem ég fékk og mér fannst ég sjálf tilbúin að takast á við þessi tvö verkefni.

Ég spilaði á hægri kantinum allt síðasta sumar með Breiðabliki og eftir að Berglind Björg [Þorvaldsdóttir] fór út til Frakklands fyrr í sumar hefur Sveindís [Jane Jónsdóttir] fært sig í framherjastöðuna og ég hef leyst kantstöðuna hjá Blikum.

Eins og ég hef áður sagt þá líður mér vel á kantinum og mér er nokkuð sama hvar ég spila ef ég er í byrjunarliðinu og hvað þá íslenska landsliðinu.“

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Elín Metta Jensen fagna marki þeirra …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Elín Metta Jensen fagna marki þeirra síðarnefndu gegn Svíþjóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Traustið skiptir máli

Aldamótabörnin í íslenska liðinu fengu mikið hrós fyrir frammistöðu sína gegn Lettum og Svíum en ásamt Karólína voru þær Alexandra Jóhannsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir báðar í byrjunarliðunum í báðum leikjum.

„Það er mikið af reynsluboltum í þessu landsliði og Sara [Björk Gunnarsdóttir] var sem dæmi að vinna Meistaradeildina þannig að maður tekur alveg hrósi frá henni. Margir leikmenn í hópnum hafa verið mjög lengi í A-landsliðinu og það var frábært að finna fyrir öllum stuðningnum frá þeim.

Þær voru duglegar að stappa í okkur stálinu fyrir báða leikina og við fengum mikið traust frá þeim sem skipti okkur gríðarlega miklu máli. Þær voru alltaf tilbúnar að bakka okkur upp og manni líður vel í þannig andrúmslofti.

Það hjálpaði líka mikið að hafa Þórð Þórðarson með í þessu verkefni því hann hefur verið hálfgerður auka pabbi manns í gegnum þessi verkefni hjá yngri landsliðunum. Maður er aðeins fastur í smá þægindaramma í yngri landsliðunum og þess vegna var mjög gott að hafa einhvern sem maður gat alltaf leitað til.“

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir fengu mikið hrós …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir fengu mikið hrós fyrir frammistöðu sína gegn Lettum og Svíum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sátt með sína frammistöðu

Karólína hefur mætt sterkum liðum með Breiðabliki í gegnum tíðina en hún var óhrædd við að keyra á sænsku landsliðsmennina í leik liðanna á þriðjudaginn síðasta.

„Mér fannst við gefa þeim alvöru leik og það kom mér í raun á óvart hversu nálægt þeim við vorum, gæðalega séð. Við vorum betri en þær í seinni hálfleik og hefðum hæglega getað farið með sigur af hólmi að mínu mati.

Ég veit ekki hvort ég vilji ganga svo langt og segja að þetta sé besta lið sem ég hef mætt enda spilaði ég gegn PSG í Meistaradeildinni í fyrra og þar vorum við að mæta leikmönnum úr bestu landsliðum heims.

Svíarnir voru engu að síður mjög góðir en við vorum alveg óhræddar við að keyra á þær þrátt fyrir að vera ekki með einhver svaka nöfn aftan á bakinu á okkur enda skipta nöfnin aftan á treyjunni ekki neinu máli fyrr en leikurinn er búinn.

Heilt yfir þá er ég mjög sátt með mína frammistöðu í þessum tveimur leikjum. Það skiptir öllu máli, þegar að maður er ungur að nýta þau tækifæri sem maður fær, mér fannst bæði ég og hinar ungu stelpurnar í hópnum, gera það virkilega vel.“

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Jonna Andersson takast á í leik …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Jonna Andersson takast á í leik Íslands og Svíþjóðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markmiðasetning mikilvæg

Karólína segir mikilvægt fyrir ungar knattspyrnukonur að setja sér markmið sem þær geta náð.

„Það er mjög mikilvægt fyrir ungar knattspyrnukonar að setja sér markmið en að sama skapi er líka mikilvægt að fókusera ekki of mikið á það. Það er gott að hafa þau á bakvið eyrað og skammtíma markmið eru í raun alveg jafn mikilvæg og langtíma markmiðin, ef ekki mikilvægari.

Það að fara snemma að sofa á kvöldin sem dæmi getur skipt öllu máli í stóra samhenginu og ég hvet þess vegna allar ungar stelpur til þess að skrifa niður sín markmið því það er fátt skemmtilegra en að ná markmiðum sínum,“ bætti Karólína við í samtali við mbl.is.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur verið fyrirliði U19 ára landsliðs Íslands.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur verið fyrirliði U19 ára landsliðs Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is