Buðum þeim upp í hættulegan dans

Alex Þór Hauksson og Oliver Sigurjónsson í baráttu um boltann …
Alex Þór Hauksson og Oliver Sigurjónsson í baráttu um boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vissum svo sem í hverju Blikar eru góðir og vorum með ákveðið upplegg fyrir leikinn. Þeir sköpuðu sér ekki mikið framan af og við skorum mjög fínt mark. En svo kannski hörfum við dálítið aftarlega á völlinn og bjóðum þeim upp í hættulegan dans. Þeir eru góðir í því sem þeir gera og við náðum ekki að loka á þá í dag,“ sagði Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnumanna eftir 2:1 tap liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu en liðið er nú í 6. sæti deildarinnar eftir leiki dagsins með 24 stig.

Stjarnan bauð ekki upp á mikinn sóknarleik í kvöld og því var Haraldur sammála.

„Það hefur verið breytingin frá fyrri árum. Við höfum fengið á okkur færri mörk en höfum skorað færri á móti. Leikirnir okkar undanfarin ár hafa oftast verið galopnir og með mörgum mörkum en fyrir utan þessar flóðgáttir sem opnuðust í síðasta leik þá höfum við verið mjög þéttir til baka og það kemur aðeins á kostnað sóknarleiksins,“ sagði Haraldur.

Spurður hvort 5:1 stórtapið gegn Valsmönnum í síðustu umferð hafi haft einhver áhrif á leik Stjörnumanna í kvöld sagði Haraldur:

Haraldur Björnsson.
Haraldur Björnsson. mbl.is/Ómar

„Alls ekki. Ég held að við höfum alveg sýnt það að við vorum þéttir og flottir og þeir sköpuðu sér ekki mikið af færum þótt þeir kæmu upp vængina. Mikið af þversendingum hingað og þangað en ekkert mikið af færum. En við vorum ekki alveg að ná að halda í boltann í kvöld sem við hefðum þurft að gera til þess að komast ofar á völlinn," sagði Haraldur en skammt er í næsta leik Stjörnunnar sem er gegn HK á sunnudag.

„Það er stutt á milli leikja. Næsti leikur er á sunnudag, það gefst ekki mikill tími til þess að ná mikilli pásu. Menn þurfa að vera snöggir að átta sig á hlutunum og undirbúa sig fyrir næsta leik," sagði Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert