Ekki fallegasti fótboltinn en við vildum bara þrjú stig

Ásgeir Eyþórsson skoraði fyrsta mark Fylkis í 2:1 sigri í …
Ásgeir Eyþórsson skoraði fyrsta mark Fylkis í 2:1 sigri í Árbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst bara  bara bónus að skora mörk, samt alltaf jafn gaman að skora,“  sagði Ásgeir Eyþórsson sem var mjög öflugur í vörn Fylkis og skoraði líka fyrsta mark Fylkis í 2:1 sigri á Víkingum í Árbænum í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni.

„Við töpuðum illa í síðasta leik og þurftum að þétta vörnina, fórum í fjögurra manna vörn og þéttum liðið og þetta var ekki fallegasti fótbolti sem við höfum spilað í sumar en við vildum bara ná í þrjú stig. Mér fannst Víkingar vera meira með boltann og við vissum að þeir væru mjög léttleikandi og erfitt að ráða við þá en gerðum vel með í því að ráða við þá, sérstaklega fyrri partinn en svo slaknaði aðeins á okkur seinni partinn í fyrri hálfleik og þeir lágu á okkur í lokin en við siglum þessu heim.“

Með sigrinum komst Fylkir í 4. sæti deildarinnar.   „Við þurftum sigur til að efla okkur, viljum vera ofar í stigatöflunni og sýnum að við getum nálgast liðin efst en þetta er ekkert nema vinna og við erum að bæta okkur og nálgast þessi lið,“  bætti Ásgeir við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert