Leiðin er greið fyrir Valsmenn

Patrick Pedersen fagnar eftir að hafa komið Val í 2:0 …
Patrick Pedersen fagnar eftir að hafa komið Val í 2:0 í Kaplakrika í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir 4:1 sigur Vals á FH í Pepsí Max deildinni í Kaplakrika er leiðin greið fyrir Val að Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu. Ævintýralega atburðarás þyrfti á lokaspretti Íslandsmótsins til að annað lið en Valur geti orðið meistari.

Forskot Vals á FH er nú orðið ellefu stig og þriðji Íslandsmeistaratitill liðsins á fjórum árum blasir við.

Bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson sá um að skora tvö mörk fyrir Val í Hafnarfirði í dag. Hann skoraði fyrsta mark leiksins með skalla af stuttu færi eftir að Haukur Páll skallaði aukaspyrnu Petry til Birkis á 19. mínútu. Daninn skæði Patrick Pedersen skoraði annað markið með góðu skoti eftir sendingu frá Sigurði Agli Lárussyni á 41. mínútu. Aðeins mínútu síðar renndi Steven Lennon boltanum í netið hjá Val úr teignum eftir góðan undirbúning Eggerts Gunnþórs sem sendi netta sendingu inn fyrir Eið Aron.

Valsmenn fengu óskabyrjun í síðari hálfleik þegar Birkir skoraði þriðja markið og sitt annað á 47. mínútu. Gunnar Níelsen varði skalla frá Kristni Frey og Birkir var réttur maður á réttum stað við markteigshornið hægra megin og þrumaði boltanum í netið.

Úrslitin voru svo gott sem ráðin á 58. mínútu þegar Guðmann Þórisson fékk rauða spjaldið fyrir tæklingu þar sem hann fór með sólann á undan sér.

Valsmenn létu kné fylgja kviði og Sigurður Egill var við það að komast í færi. Boltinn fór í höndina á Guðmundi Kristjáns og Helgi Mikael dæmdi vítaspyrnu. Úr henni skoraði Kristinn Freyr Sigurðsson á 66. mínútu.

Leiknum var frestað í byrjun ágúst vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og liðin eigast eftir að mætast aftur í deildinni. 

Átti FH að fá vítaspyrnu?

FH-ingar voru súrir yfir nokkrum atriðum í leiknum. Þeir hefðu vissulega getað fengið vítaspyrnu í stöðunni 0:0. Eiður Aron ætlaði að senda fram úr eigin vítateig. Steven Lennon pressaði hann og komst fyrir sendinguna. Við það hrökk boltinn í upphandlegginn á Eiði. Hafi hann verið með höndina frá líkamanum þá hefði verið hægt að dæma vítaspyrnu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Valur fyrsta mark leiksins. Í síðari hálfleik var dæmt víti á FH vegna hendi og misræmið er því óheppilegt. 

Brottvísun Guðmanns var þó væntanlega réttur dómur. Ég sé ekki betur en að Guðmann hafi verið með takkana á undan sér í tæklingu og hafi lent nokkuð harkalega á Petry. 

Guðmann fékk rauða spjaldið á 66. mínútu í stöðunni 1:3 og þá voru úrslitin endanlega ráðin. Vendipunkturinn í leiknum var hins vegar að Valur skyldi skora og komast í 3:1 strax í upphafi síðari hálfleiks. Birkir Már skoraði þá á 47. mínútu. FH-ingar náðu að minnka muninn 1:2 strax eftir að Valsmenn skoruðu og því var væntanlega kjaftshögg fyrir þá að síðari hálfleikurinn skyldi byrja með þeim hætti. 

En þótt FH-ingar hafi verið súrir yfir dómgæslunni þá viðurkenna þeir örugglega að liðið hafi ekki spilað nógu vel í dag til að leggja toppliðið að velli. Leikurinn var afar þýðingarmikill eins og fram hefur komið. Valsmenn voru komnir í vænlega stöðu á toppnum og FH hefði þurft að vinna til að hleypa smá spennu í baráttuna um titilinn. Þeir sköpuðu ekki mörg færi í fyrri hálfleik og hafa oft verið beittari að undanförnu.

Auk þess geta menn ekki leyft sér að gefa Patrick Pedersen svigrúm ef þeir ætla að vinna meistaraefnin. Daninn skoraði í fyrri hálfleik og fékk auk þess tvö góð skallafæri á markteig í fyrri hálfleik. En kannski er þetta bara enn einn vitnisburðurinn um hversu erfitt er að halda honum niðri. 

FH 1:4 Valur opna loka
90. mín. FH fær hornspyrnu Frá vinstri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert