Bæði lið vöknuðu á lokamínútunum

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvívegis fyrir ÍA í dag.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvívegis fyrir ÍA í dag. Ljósmynd/Skagafréttir

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvívegis þegar ÍA vann 3:1-sigur gegn Fjölni í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Extra-vellinum í Grafarvogi í frestuðum leik úr 10. umferð deildarinnar í dag.

Stefán Teitur Þórðarson kom Skagamönnum yfir strax á 16. mínútu með hnitmiðuðu skoti úr teignum en Jón Gísli Eyland Gíslason átti þá laglega fyrirgjöf frá hægri, Tryggvi Hrafn Haraldsson hoppaði yfir boltann, og Stefán Teitur kláraði færið virkilega vel.

Tryggvi Hrafn Haraldsson tvöfaldaði forystu Skagamanna á 83. mínútu með frábæru skoti af 20 metra færi. Aron Kristófer Lárusson átti þá frábæran sprett upp vinstri kantinn, lagði boltann út á Tryggva, sem þrumaði honum upp í samskeytin fjær, óverjandi fyrir Atla Gunnar í marki Fjölnismanna.

Guðmundur Karl Guðmundsson minnkaði muninn fyrir Fjölnismenn með marki á 89. mínútu þegar hann kláraði snyrtilega fram hjá Árna Snæ í marki Skagamanna en lengra komust Fjölnismenn ekki.

Tryggvi Hrafn bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Skagamanna í uppbótartíma þegar Aron Kristófer átti laglegan sprett, aftur upp vinstri kantinn. Aron sendi fyrir á Tryggva sem kláraði færið snyrtilega fram hjá Atla Gunnari og þar við sat.

Skagamenn fara með sigrinum upp sjöunda sæti deildarinnra í 20 stig og eru nú með einu stigi meira en HK, sem er í áttunda sætinu, og 2 stigum minna en Fylkir sem er í sjötta sætinu.

Fjölnismenn eru áfram fastir á botni deildarinnar, líkt og þeir hafa verið í allt sumar, en liðið er með 6 stig, 10 stigum frá öruggu sæti.

Stefán Teitur Þórðarson kom Skagamönnum á bragðið gegn Fjölni.
Stefán Teitur Þórðarson kom Skagamönnum á bragðið gegn Fjölni. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Skagamenn sluppu með skrekkinn

ÍA byrjaði leikinn af þvílíkum krafti og hefði getað skorað þrjú mörk á fyrstu tíu mínútum leiksins. Eftir að liðið komst hins vegar yfir dró mikið af þeim og þeir einhvernvegin hleyptu Fjölnismönnum inn í leikinn með hálfgerðu kæruleysi.

Skagamönnum til happs þá geta Fjölnismenn ekki keypt sér sigur og Grafarvogsliðinu tókst aldrei að nýta yfirburði sína undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari háfleik virtust Skagamenn svo bara vera að bíða eftir lokaflautinu.

Það var ekki fyrr en rúmar sjö mínútur voru eftir af leiknum sem þeir vöknuðu og Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö lagleg mörk. Heilt yfir var frammistaða Skagamanna  ekkert til þess að hrópa húrra yfir en það er líka styrkleikamerki að vinna leiki þegar að þú ert langt frá þínu besta.

Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eina mark Fjölnismanna.
Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eina mark Fjölnismanna. mbl.iS/Eggert Jóhannesson

Fellur ekkert með Fjölni

Fjölnismenn voru eins tæpir og hægt er að vera í varnarleik sínum til að byrja með en þeim tókst að vinna sig ágætlega inn í leikinn. Sóknarmenn Fjölnis fengu nokkur dauðafæri til þess að skora í fyrri hálfleik en alltaf fór boltinn yfir eða fram hjá markinu.

Grafarvogsliðið sýndi lipra spretti inn á milli en því tekst ekki að klára leiki sína og þess vegna er auðvelt að halda því fram að liðið sé einfaldlega ekki með nægilega mikil gæði innan sinna raða til þess að spila í efstu deild.

Fjölnismenn bíða áfram eftir sínum fyrsta sigri, hafa skorað 15 mörk í deildinni og fengið á sig 37. Það er í raun ótrúlegt að liðið sé ekki löngu fallið með þessa tölfræði en sem betur fer fyrir þá eru nokkur slök lið í deildinni í ár.

Jeffrey Monakana gæti reynst happafengur og lykillinn að því að Fjölnir sæki stig í lokaleikjum tímabilsins en leikmenn liðsins verða að nýta þau færi sem hann býr til, líkt og í dag.

Fjölnir 1:3 ÍA opna loka
90. mín. Jeffrey Monakana (Fjölnir) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert