Mjög þreytt umræða

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við vorum vel vakandi þegar leikurinn byrjar og hefðum getað skorað tvö mörk snemma leik,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins gegn Fjölni í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Extra-vellinum í Grafarvogi í dag.

„Þetta var skrítinn leikur og þó að völlurinn líti vel út í fjarska var mjög krefjandi að spila á honum þar sem hann var mjög sleipur. Þetta var alls ekki áferðafallegur leikur og við höfum oft spila betur en við gerðum. Hugarfarið var hins vegar til staðar, sem og vinnuframlag leikmanna liðsins, og ég er virkilega ánægður með það.

Við tökum það með okkur út úr þessum leik að við áttum ekki okkar besta dag en vinnum samt. Það sást á öllum leikmönnum liðsins á lokamínútunum að við vildum virkilega vinna þennan leik og það var fullt af varnarhlaupum sem við þurftum að taka og við gerðum það vel. Tryggvi var líka frábær, skoraði tvö mörk og pressa vel, líkt og Stefán Teitur, og það skilaði sér til liðsins.

Það búa mikil gæði í þessu liði og við höfum sýnt það í sumar að við getum skorað mörk. Við vorum agaðir og tilbúnir að vinna fyrir hvorn annan líka sem er mjög jákvætt.“

Tryggvi Hrafn Haraldsson og Stefán Teitur Þórðarson hafa báðir verið …
Tryggvi Hrafn Haraldsson og Stefán Teitur Þórðarson hafa báðir verið orðaðir við brottför frá Akranesi í allan vetur. Ljósmynd/Skagafréttir

Strákarnir elska fótbolta

Skagamenn eru með 20 stig í sjöunda sæti deildarinnar og hafa því að litlu að keppa.

„Við höfum gaman að því sem við erum að gera og þetta er virkilega skemmtilegur hópur að vinna með. Það er alltaf gaman að mæta á æfingar og við erum klárir í hvern einasta leik sem við spilum.

„Það er spennandi leikur fram undan hjá okkur á sunnudaginn gegn Fylki. Það er fullt af leikjum eftir og það er ekki erfitt að mótivera strákana því þeir vilja spila fótbolta og vinna fótboltaleiki.“

Stefán Teitur Þórðarson og Tryggvi Hrafn Haraldsson sáu um markaskorun ÍA í dag en þeir hafa báðir verið orðaðir við brottför frá félaginu undanfarna mánuði.

„Þessi umræða byrjaði í janúar og hún hefur haldið áfram í febrúar, mars, apríl, júní og júlí. Auðvitað er þetta mjög þreytandi en eins og sást í dag þá eru þeir leikmenn ÍA í dag og þeir elska að spila fyrir félagið sitt.

Þeir, eins og aðrir leikmenn liðsins, eru mjög einbeittir á að klára þetta tímabil með ÍA af miklum krafti,“ bætti Jóhannes Karl við í samtali við mbl.is.

mbl.is