Sest á sálina á mönnum

Ásmundur Arnarson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarson, þjálfari Fjölnis. Ljósmynd/Íris

„Þetta er í raun bara sama sagan og mér finnst 3:1 ekki gefa rétta mynd af þessum leik,“ sagði Ásmundur Arnarson, þjálfari Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins gegn ÍA í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Extra-vellinum í Grafarvogi í dag.

„Við fengum nokkur dauðafæri en við náum ekki að nýta þau og þá er erfitt að vinna fótboltaleiki. Þetta segir okkur að það vantar gæði fyrir framan markið en ef við horfum nokkra leiki aftur í tímann þá eru þetta ekki alltaf sömu mennirnir sem eru að klikka á þessum færum og það segir ýmislegt um sjálfstraustið í liðinu.

Þetta er vítahringur sem við komum okkur sjálfir í og það getur verið erfitt að koma sér út úr honum. Það sjá allir hvernig þessi leikur spilaðist, þeir fá gott mark eftir fyrirgjöf, en síðan tökum við yfir leikinn og fáum fullt af færum. Mér fannst við spila nægilega vel til þess að vinna leikinn en við nýtum ekki færin og þá áttu ekkert skilið.“

Fjölnismenn hafa skoraði 15 mörk í deildinni í sumar.
Fjölnismenn hafa skoraði 15 mörk í deildinni í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áskorun fram undan

Fjölnismenn bíða ennþá eftir sínum fyrsta sigri í deildinni en liðið er í neðsta sæti deildarinnar með 6 stig eftir sextán leiki.

„Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að gíra liðið upp fyrir leikina. Við erum búnir að spila sextán leiki í deildinni í sumar án þess að vinna og auðvitað sest það á sálina á mönnum. Það er hörkuverkefni og áskorun að gíra strákana og sjálfan sig upp fyrir komandi verkefni.

Að sama skapi er frábær andi í hópnum, þrátt fyrir allt, en það er þetta mál með sjálfstraustið sem er erfitt. Þú þarft að ná að klára gott verkefni með góðum sigri til þess að fá ákveðna næringu fyrir komandi leiki.“

Fjölnismenn eru 11 stigum frá öruggu sæti þegar 18 stig eru eftir í pottinum.

„Það er ekki uppgjöf í okkur og við höldum að sjálfsögðu áfram en það er alveg augljóst að það er lítið sjálfstraust í hópnum,“ bætti Ásmundur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert