Tíu Gróttumenn nældu í jafntefli gegn KR

KR og Grótta í leik í deildabikarnum fyrir nokkrum árum. …
KR og Grótta í leik í deildabikarnum fyrir nokkrum árum. Liðin hafa aldrei áður mæst á Íslandsmóti karla. mbl.is/Golli

KR og Grótta gerðu 1:1-jafntefli í Frostaskjóli í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag. Gestirnir voru manni færri í rúmar 50 mínútur en nældu samt í stig gegn ríkjandi Íslandsmeisturunum.

Um sögulegan viðburð var að ræða því þessi nágrannafélög höfðu aldrei áður mæst í efstu deild karla í fótbolta. KR-ingar voru auðvitað mikið sigurstranglegri enda ríkjandi Íslandsmeistarar en Grótta er í næstneðsta sæti deildarinnar.

Rólega fór leikurinn af stað en það dró hins vegar til tíðinda á 38. mínútu þegar Sigurvin Reynisson, fyrirliði Gróttu, fékk beint rautt spjald fyrir háskalega tæklingu á Pablo Punyed. Markalaust var svo eftir fyrri hálfleikinn en gestirnir frá Seltjarnarnesinu tóku svo forystuna á 54. mínútu, manni færri. Karl Friðleifur Gunnarsson skoraði eftir að Kristófer Orri Pétursson lyfti boltanum inn í vítateig úr aukaspyrnu.

Eftir þetta lögðust gestirnir í vörn og spiluðu nánast úr eigin vítateig í von um að sækja frækinn sigur á Meistaravöllum. KR-inga blésu aftur á móti til sóknar en voru þó í miklum vandræðum með að skapa sér færi. Þeim tókst þó að kreista fram jöfnunarmarkið á 70. mínútu. Pablo Punyed skoraði það eftir fyrirgjöf frá Stefáni Árna Geirssyni. Nær komust heimamenn þó ekki þrátt fyrir mikla pressu á lokamínútunum og niðurstaðan 1:1 jafntefli.

Erum á rassgatinu allan leikinn

Nágrannafélögin voru að mætast í deildarkeppni í fyrsta sinn í sögunni og bjuggust væntanlega flestir við því að ríkjandi meistararnir myndu vinna nokkuð öruggan sigur gegn Gróttu sem situr í næst neðsta sæti og er líklegt til að falla rakleiðis aftur úr deildinni. Þær væntingar breyttust ekki þegar Sigurvin Reynisson, fyrirliði Gróttu, fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleik. Engu að síður tóku gestirnir óvænt forystu í leiknum og þurfti KR-ingar að hafa fyrir því að jafna seint og síðar meir. Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR í leiknum í dag, hrósaði Gróttu fyrir sinn leik en sagði úrslitin ekki KR sæmandi.

„Þeir gerðu þetta mjög vel, ég tek það ekkert af þeim en við létum boltann ekki ganga vel og spiluðum ekki leikinn eins og lagt var upp með. Við erum á rassgatinu nánast allan leikinn og eigum að skammast okkar fyrir þessa frammistöðu,“ sagði miðjumaðurinn tæpitungulaust í samtali við mbl.is að leik loknum. Eftir laglegan 2:0-sigur á Breiðabliki í síðasta leik var þetta tvímælalaust skellur fyrir meistarana sem  eiga álíka dapra titilvörn og Valsarar í fyrra. Áfram eru KR-ingar líka heitir og kaldir til skiptis, þó aðallega kaldir á heimavelli. KR hefur spilað níu leiki í Vesturbænum í sumar og er árangurinn ekki til að kæta þá fáu KR-inga sem fá að mæta á völlin. Liðið hefur unnið þrjá, gert tvö jafntefli og tapað fjórum.

Þó gestirnir frá Seltjarnarnesi geti verið ánægðir og stoltir af frammistöðu sinni og stiginu gerir það lítið fyrir þá. Þeir eru enn átta stigum frá KA í 9. sætinu og sjö stigum frá Víkingum í 10. sæti sem eiga einnig tvo leiki til góða. Grótta mætir einmitt KA á sunnudaginn og er þá að duga að drepast. Það verður þeirra allra, allra síðasti séns til að halda sæti sínu.

KR 1:1 Grótta opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma. Geta KR-ingar kreist fram sigurmark?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert