„Veit að hlutirnir geta farið hratt til verri vegar“

Frá leik FH og Vals í dag.
Frá leik FH og Vals í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Birkir Már Sævarsson sýndi sparihliðarnar í dag og skoraði tvö mörk þegar Valur vann FH 4:1 í Kaplakrika í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu. Hann fullyrðir að of seint sé fyrir sig að ná í gullskóinn. 

Valur er nú með ellefu stiga forskot á FH og sigur á Íslandsmótinu blasir við Valsmönnum. Er Birkir ekki tilbúinn til að lýsa því yfir að Valur verði meistari?

„Nei alls ekki. Ég er búinn að vera svo lengi í þessum bransa að ég veit að hlutirnir geta farið ansi hratt til verri vegar. Nú skiptir máli að halda áfram að vinna leiki,“ sagði Birkir og var afar ánægður með frammistöðu Valsmanna. 

„Þetta var frábær frammistaða og frábær úrslit. Við vorum traustir þótt við höfum fengið á okkur ódýrt mark undir lok fyrri hálfleiks. Við komum sterkir út í seinni hálfleik og settum þá strax mark á þá. Ég held að það hafi verið mikilvægt til að drepa nánast einhvern vonarneista hjá þeim.“

Gamli landsliðsbakvörðurinn skoraði tvívegis í leiknum og hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum. Er hann ekki bestur að nýta færin í Valsliðinu? „Jú langbestur en ég fæ bara svo sjaldan tækifæri til að sýna það.“ Ertu það ekki taktísk mistök? „Mögulega. Kannski fær ég fleiri tækifæri til að skora í næstu leikjum. Færin virðast koma hratt núna.“ Er orðið of seint fyrir Birki að verða markakóngur? „Já ég myndi segja það. Við leyfum Patrick [Pedersen] að fá það enda skiptir það meira máli fyrir hann,“ sagði Birkir og hló.

Birkir fékkst til að samþykkja að Daninn sé einnig býsna seigur að nýta marktækifærin en Pedersen skoraði annað mark Vals í dag. „Já hann er heldur betur góður í að nýta færin. Hann hefði þó mátt skora í fyrri hálfleik þegar ég gaf fyrir en maður fær ekki allt,“ sagði Birkir og var skiljanlega laufléttur í ljósi aðstæðna og lét ekki einkennilegar spurningar slá sig út af laginu. 

Birkir Már Sævarsson
Birkir Már Sævarsson mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert