„Vorum ekki nógu góðir“

Eggert Gunnþór Jónsson í leiknum í dag.
Eggert Gunnþór Jónsson í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Eggert Gunnþór Jónsson, miðtengiliður FH, sagði FH-inga ekki hafa verið nógu góða til að vinna Val í Kaplakrika í dag. Eggert lagði upp mark FH í leiknum. 

„Ákvarðanir féllu ekki með okkur í dag. En vissulega leyfðum við þeim að komast í 2:0 og í báðum tilfellum finnst okkur að við hefðum getað gert betur. Ég get gefið þeim að þeir gerðu samt vel í að afgreiða þau færi en frekar ódýr að okkar hálfu fannst mér,“ sagði Eggert Gunnþór þegar mbl.is spjallaði við hann í Kaplakrika.

„Þegar við komum út í seinni hálfleikinn var þetta allt annar leikur. Okkur fannst að þá væri kjörið tækifæri til að keyra á þá. En við fengum á okkur óskiljanlega aukaspyrnu þegar Valur skoraði þriðja markið. Ég hélt að Björn Daníel væri að fá aukaspyrnu en þá var dæmt á hann. Ég trúði því bara ekki. Svo kom kafli þar sem við misstum mann út af og þá var þetta orðið erfitt enda 1:3 undir. Það er erfitt að spila á móti Val ellefu á móti ellefu og enn erfiðara að vera bara tíu.“

Spurður um hvort FH hafi átt að fá víti í stöðunni 0:0 þegar boltinn fór í höndina á Eiði Aroni sagði Eggert að það hefði kannski verið í samræmi við dóm sem féll síðar í leiknum.

„Strákarnir segja að boltinn hafi farið í hendina á honum. Miðað við aðra dóma í leiknum þá hefði maður viljað fá víti. En ég hef ekki séð atvikið aftur. Maður vill ekki vera að væla yfir dómgæslu strax eftir leik. Stundum falla þær ákvarðanir með manni og stundum ekki. Aðalatriðið er að við vorum ekki nógu góðir að mínu mati,“ sagði Eskfirðingurinn ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert