Fundu góða blöndu á Selfossi

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst markinu okkar ekki mikið ógnað í dag,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn KR í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbæ í  dag.

„Við fáum ekki eitt færi á okkur í fyrri hálfleik og varla í seinni hálfleik, nema kannski í upphafi síðari hálfleiks. Að sama skapi fannst mér innkoma okkar inn í seinni hálfleikinn alls ekki nægilega góð og það var allt of mikil værukærð yfir liðinu.

Við ræddum málin í hálfleik og það var allt svo opið og auðvelt að framkvæma þá hluti sem við ætluðum okkar að framkvæma. Við féllum þess vegna í þá gryfju að hlutirnir yrðu þannig líka í seinni hálfleik en annað kom á daginn.“

Anna María Baldursdóttir er að snúa til baka eftir meiðsli.
Anna María Baldursdóttir er að snúa til baka eftir meiðsli. mbl.is/Arnþór Birkisson

Anna María Baldursdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir voru frábærar í miðri vörn Stjörnunnar í dag.

„Það kemur mikil ró með Önnu Maríu og Málfríði Ernu. Boltinn var tekinn niður í dag sem dæmi, honum var spilað einfalt á markmanni og þannig var hægt á öllu spilinu á síðustu tuttugu mínútum leiksins þegar við vorum of mikið út um allt með liðið.

Það kemur mikill talandi og stýring á ungu leikmennina með þær innan borðs og þær hafa hjálpað okkur gríðarlega mikið. Þær stelpur sem hafa leyst þessa stöðu í sumar hafa staðið sig gríðarlega vel en við þurfum á þessum reynsluboltum að halda á þessum tímapunkti í mótinu.“

Stjörnukonur virðast hægt og rólega vera að finna taktinn eftir heldur hæga byrjun á mótinu.

„Við erum búin að spila fjóra leiki í röð án þess að gera margar breytingar, nema þá kannski vegna meiðsla og þess háttar. Við fórum í gegnum þriggja leikja hrinu á stuttum tíma og það er ekki líkt okkur að hreyfa lítið við liðinu í þannig hrinu.

Við fundum ákveðna blöndu á Selfossi sem virkaði mjög vel og við höfum haldið henni. Í dag snérist þetta um að taka stigin þrjú og við hreyfðum því lítið við liðinu þegar inn í leikinn var komið því okkur hefur skort smá stjórn á leikjunum og það er það sem þetta lið þarf að læra,“ bætti Kristján við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert