Sorgleg frammistaða gegn Stjörnunni í Vesturbæ

Aníta Ýr Þorvalsdóttir skoraði annað mark Stjörnunnar í dag.
Aníta Ýr Þorvalsdóttir skoraði annað mark Stjörnunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan vann sinn fimmta leik í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið heimsótti KR á Meistaravelli í Vesturbæ í 15. umferð deildarinnar í dag.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Stjörnunnar en bæði mörkin komu í fyrri hálfleik.

Angela Caloia kom Stjörnunni yfir á 31. mínútu eftir laglegan undirbúning Shameeku Fishley en sú síðarnefnda átti þá góðan sprett upp hægri kantinn.

Shameeka sendi fyrir markið á Caloia sem snéri Angelu Beard af sér eins og að drekka vatn og þrumaði svo boltanum í fjærhornið fram hjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR.

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir bætti við öðru marki Stjörnunnar á 40. mínútu af stuttu færi úr teignum eftir laglega fyrirgjöf Betsy Hassett og þar við sat.

Stjarnan fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 17 stig og er nú með jafn mörg stig og ÍBV sem er í sjötta sætinu.

KR er áfram í neðsta sæti deildarinnar með 10 stig, þremur stigum frá öruggu sæti, en liðið á tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan sig, Þór/KA og Þrótt.

Anna María Baldursdóttir er komin á fulla ferð með Stjörnunni …
Anna María Baldursdóttir er komin á fulla ferð með Stjörnunni eftir langa fjarveru. mbl.is/Arnþór Birkisson

Léttleikandi Garðbæingar

Garðbæingar litu virkilega vel út í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað verið fjórum til fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik. Þeir voru með algjöra yfirburði á vellinum og varnarlína KR-inga réð ekkert hraðann í fremstu leikmönnum liðsins.

Sóknarleikur Stjörnunnar hefur stundum verið að hiksta í sumar en hann tikkaði mjög vel í dag. Anna María Baldursdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir mynda afar öflugt miðvarðapar og átu alla bolta sem komu fyrir markið. Það væri forvitnilegt að vita hvar liðið væri í töflunni ef þær hefðu spilað saman í öftustu víglínu í allt sumar.

Kristján Guðmundsson þjálfari Garðbæinga gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliði sínu frá 3:0-tapinu gegn Val í síðasta leik en hann hefur verið duglegur að hræra í sínu liði í allt sumar. Það bendir allt til þess að hann sé að finna réttu blönduna, miðað við spilamennskuna og úrslitin, og löngu kominn tími til enda ekki mikið eftir af mótinu.

Það var mikið andleysi í liði KR-inga í fyrri hálfleik.
Það var mikið andleysi í liði KR-inga í fyrri hálfleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andlausir Vesturbæingar

Spilamennska KR-inga í fyrri hálfleik var í einu orði sagt sorgleg. Liðið átti ekki þrjár sendingar á milli manna, takturinn var enginn í liðinu, leikmenn liðsins voru ósamstilltir og til að toppa allt þetta var þvílíkt andleysi í liðinu sem er stórfurðulegt enda hefði sigur komið þeim af fallsvæðinu.

Þá má alveg setja spurningamerki við upplegg þjálfarateymisins í leiknum en vinstri bakvörður liðsins var tekinn af velli í hálfleik, væntanlega þar sem hún réði ekkert við Shameeku Fishley á kantinum. Báðir bakverðir KR og var hægri bakvörður KR að lokum færður í miðvarðastöðuna þar sem hann gekk talsvert betur að elta sóknarmenn Stjörnunnar.

Vesturbæingar voru skömminni skárri í seinni hálfleik enda hefði verið erfitt að toppa slakan fyrri hálfleikinn. Liðið átti að fá vítaspyrnu á 53. mínútu en í staðin var aukaspyrna dæmd. Mark hefði gert mikið fyrir KR á þessum tímapunkti en á sama tíma skapar þú þína eigin lukku og þegar öllu er á botninn hvolft átti KR ekkert skilið úr leiknum.

KR 0:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum sigri Stjörnunnar sem átti sigurinn svo sannarlega skilinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert